besti Ferðafélaginn

Íslenski hesturinn er þekktur um allan heim fyrir að vera þægilegur í reið og umgengni. Hann er vinalegur, ævintýragjarn, gáfaður og fljótur að læra, yfirleitt auðveldur í umgengni, samvinnuþýður en um leið kraftmikill og viljugur. 

Áreiðanlegur förunautur

Íslendingar hafa frá örófi alda verið hrifnir af viljugum, kraftmiklum og duglegum hrossum sem er auðskiljanlegt þegar hugsað er til þess að ferðast þurfti yfir fjöll og firnindi. Hestarnir áttu þar að auki að vera áreiðanlegir förunautar sem voru tilbúnir að taka á sprett þegar þurfti en einnig halda kyrru fyrir og veita reiðmanninum skjól fyrir veðri og vindum ef þannig bar við. Margar sögur eru af hestum sem bjargað hafa lífi eigenda sinna með hyggjuviti sínu, neitað að fara hættulegar slóðir eða bjargað þeim frá villum vegar. 

traustur vinur

Ekki er óvanalegt að sama hestinum sé riðið í mikilsmetnum keppnum, jafnvel kappreiðum á skeiði, en sé settur undir yngsta fjölskyldumeðliminn í hversdagslegum reiðtúrum. Hrossin virðast aðlagast hverjum þeim hlutverkum sem þeim eru veitt og virðast skynja til hvers er ætlast af þeim. Þessi fjölhæfni er mikils metin af aðdáendum íslenska hestsins og er einn mikilvægasti þátturinn í ræktun. Íslenski hesturinn þakkar virðingu og góða umgengni með ævilangri tryggð og vináttu. Þar sem íslenski hesturinn nær oft háum aldri þá endist þetta samband mann og hests í allt að þrjá áratugi. 

Þarfasti þjónninn

Íslenski hesturinn hefur sinnt hlutverki sínu sem þarfasti þjónninn frá landnámi. Hann hefur flutt fólk og varning langar vegaleysur: lækna, landpósta, kirkjugesti og elskendur. Hann hefur einnig verið hafður til átu, hrosshárið nýtt og jafnvel kaplamjólkin hefur verið notuð til manneldis. Þrátt fyrir að hlutverkið hafi breyst með árunum þá er íslenski hesturinn enn mikilvægur hluti af íslenskri menningu og hefur fært fólk saman, bæði innanlands og milli landa.