Íslenski hesturinn stuðlar að útiveru og gæðastundum með fjölskyldu og vinum.

Íslenski hesturinn er yfirleitt í stórum stóðum í uppvextinum. Flestir íslenskir hestar eru á haga eða í opnum húsum alla ævi, allt árið um kring, en aðeins reiðhestarnir eru á húsi yfir veturinn. Þetta á sjaldnast við í öðrum löndum. Er líður að sumri, um leið beitilönd eru orðin grösug, er reiðhestum sleppt í haga þar sem þeir dvelja allt sumarið og langt fram á haust.

Oft hópar fólk sig saman sem er með hesthús á svipuðum slóðum og ríður hrossunum í sumarhagana. Slíkar ferðir eru jafnan kallaðar sleppitúrar. Margir hestamenn hlakka til þessarar reiðar allan veturinn þar sem góðir vinir og fögur og eftirvæntingarfull hross fara saman, auk þess sem þessi forni fararmáti er hafður í heiðri.

Sumarferðir

Hestaferðir að sumri eru hápunktur ársins að mati margra hestamanna á Íslandi. Þjálfun vetrarins miðar að þessum ferðum. Við undirbúning hestaferðanna hafa ófáir kaffibollar verið drukknir og jafnvel verið sopið á öli. Vanalega er hver hestamaður með 3-5 hesta til reiðar í slíkum ferðum. Stóðið er rekið milli áningarstaða og eru nokkrir reiðmenn á undan og aðrir reka á eftir og sjá til þess að enginn heltist úr lestinni. Reglulega er skipt um hesta til að þreyta þá ekki um of. Eftir því sem líður á ferðina fyllast hrossin krafti og ánægju. Fátt jafnast á við þá einstöku frelsistilfinningu sem menn og hestar njóta í hestaferðum að sumri.

 

Haustbeit

Enn er hefð fyrir því á Íslandi að veita hrossum hvíld þegar þeir eru settir á haustbeit. Þeim er þá ekki riðið í nokkrar vikur og stundum í allt að þremur mánuðum. Skeifur eru teknar undan þeim, eða hrossin tekin af járnum eins og hestamenn tala um, og hrossunum leyft að hlaupa frjálsum um hagann, oft í stórum stóðum. Margir hestamenn taka eftir því þegar tekur að kólna og hestarnir komast í vetrarham með þykkari feldi að þeir verða rólegri og stundum er eins og þeir séu syfjaðir. Hestarnir leika sér minna og eru orkuminni en þegar þeim er riðið. Íslenski hesturinn hefur aðlagast loftslagi Íslands vel og hluti af því er að hann safnar fitu þegar líður á sumarið til að takast betur á við langa og harða vetur.

 

Hesthúsasvæði á Íslandi

Eftir hausthvíldina er mikil eftirvænting meðal hestamanna því þá hefst þjálfunartíminn að nýju. Hesthúsasvæði eru við alla þéttbýlisstaði landsins sem stundum eru eins og þorp með fjölmörgum hesthúsum sem flest eru í einkaeigu. Á hesthúsasvæðunum deila hestamenn aðstöðu eins og skeiðvöllum, reiðgötum og reiðhöllum. Kaffistofan er nauðsynlegur hluti af hverju hesthúsi og oft eru þetta hinar glæsilegustu vistarverur með nánast fullbúnu eldhúsi og eldhúsborði. Þetta er bæði hagkvæmt fyrir hestamenn en einnig ómetanlegur vettvangur fyrir spjall um daginn og veginn því gaman er að skreppa í kaffi til nágranna eftir góðan reiðtúr.