FIMM gangtegundir

Íslenski hesturinn býr yfir fleiri gangtegundum en flest hestakyn. Allar hestategundir búa yfir feti, brokki og stökki/valhoppi en sá íslenski hefur tvær gangtegundir til viðbótar.

Tölt 

Töltið er einstakur fjórtakta gangur og sú gangtegund sem íslenski hesturinn er frægastur fyrir. Gangurinn er þýður og engin spenna á milli skrefa líkt og í brokki og stökki. Hægt að ríða úr mjög hægu tölti yfir í mjög hratt.

Skeið

Skeiðið er „fimmti gírinn“ og síðasta gangtegundin sem er tvítakta samhliða hreyfing með flugi. Hesturinn er lagður á miklum hraða og er skeiðið stundum notað í kappreiðum en aldrei langar vegalengdir, vanalega aðeins 100-200 metra.

Gangtegundirnar tölt og skeið eru íslenska hestinum eðlislægar og nýfædd folöld sýna þá oft mjög snemma. Flestir íslenskir hestar eru alhliða hestar en aðrir eru kallaðir klárhestar og þá skortir skeiðið. Erfðafræðilegir þættir einkenna öll ganghestakyn sem gerir þeim kleift að ná háum hraða á öllum gangtegundum án þess að missa hestinn á stökk og eru hreyfingar þeirra þýðar og hliðstæðar. Genið sem gerir hestana alhliða er víkjandi þannig að hesturinn verður að fá gen frá báðum foreldrum til þess að geta skeiðað.
Margir reyndir erlendir hestamenn sem þekkja ekki íslenska hestinn eiga ekki til orð yfir þessum einstöku hreyfingum þegar þeir upplifa tölt í fyrsta sinn og „tölt-brosið“ birtist ósjálfrátt á andlitum þeirra.