Íslenski gæðingurinn hefur marga kosti og meðal þeirra eru ganghæfileikar hans. Keppnisgreinar hestaíþrótta á íslenskum hestum hafa mótast og þróast og þannig fá hæfileikar hestsins að skína.

Keppnisformin eru tvö í Íslandshestaheiminum, annars vegar gæðingakeppnin og hins vegar íþróttakeppnin. Gæðingakeppnin er elsta keppnisformið og hefur verið keppt í gæðingakeppni á Landsmótum hestamanna frá upphafi eða frá árinu 1950.

Í gæðingakeppni er keppt í barnaflokki, unglingaflokki, ungmennaflokki og í A- og B-flokki fullorðinna, þar sem í A-flokki eru hestar sem búa yfir skeiði en í B-flokki eru klárhestar.

Eins og segir í Lögum og reglum LH, er markmið gæðingakeppninnar að finna besta reiðhestinn og þá ber dómurum ávallt að hafa í huga höfuðforsendur eins og vilja, takt og samræmi, framtak og gangrými fas og hreyfingafegurð.

Þegar íþróttakeppni og gæðingakeppni eru bornar saman má sjá að í íþróttakeppni er lögð meiri áhersla á knapann, hans reiðmennsku, takt, hraða og form. Í gæðingakeppni hins vegar er hesturinn í lykilhlutverki, keppnisformið er frjálsara og opnara, minni kröfur á nákvæmni og einkenni góðra sýninga eru vilji, kraftur og rými á gangi. Nálgun knapa við hestinn byggir á hinni upprunalegu ímynd íslenska hestsins þar sem andinn er frjáls og hið góða geðslag kemur í ljós. Það er hinn sanni íslenski gæðingur.

Það er mikilvægt að hafa þessi mismunandi keppnisform sem henta fjölbreyttum hópi knapa og hesta. Í myndbandinu Af hverju gæðingakeppni?, er hægt að fræðast um gæðingakeppnina og sjá viðtöl við knapa. Myndbandið er gefið út af LH og GDLH.

 

Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir
Myndir: Louisa Hackl

Myndasafn

0 0 0

Deila: