Við erum komin heim frá heimsmeistaramótinu í Hollandi og gætum ekki verið ánægðari með þessa 10 daga sem við eyddum þar!

Skipuleggjendur og sjálfboðaliðar stóðu sig ótrúlega vel við að sýna íslenska hestinn á þann glæsilega hátt sem hann á skilið og gæði bæði hesta og knapa voru ótrúleg. Veðrið var líka að með okkur hestaunndendum í liði (oftast) þegar keppnisvikan byrjaði, sem við vorum mjög þakklát fyrir í ljósi þess hversu mikið rigndi dagana á undan.

Það snertir okkur alltaf jafnmikið að sjá hversu stór Íslandshestaheimurinn er og hversu margir unnendur hans koma saman á heimsmeistaramótum til að hylla hann og etja kappi við knapa og hesta úr öllum heimshornum. Fulltrúar frá 13 löndum voru að keppa í ár og einnig fengum við gesti frá löndum eins og Rúmeníu og Nýja-Sjálandi, (Rúmenía er ekki hluti af FEIF - ennþá - sem er skilyrði til að keppa á heimsmeistaramótinu).

Þessi alþjóðlega samkoma er svo mikilvæg fyrir okkur sem viljum sjá íslenska hestinn dafna um allan heim og við vorum einstaklega ánægð með jákvæða andrúmsloftið á meðan viðburðinum stóð. Það gafst tækifæri til að hitta gamla vini, eignast nýja og skapa ný tengsl á milli landa.

Knaparnir sýndu frábæra íþróttamennsku og það gladdi okkur að sjá áhorfendur gleðjast yfir öllum fallegu sýningunum. Einn stór þáttur var líka áþreifanleg samúð um alla áhorfendapallana þegar óheppni dundi yfir á brautinni, sama hvert þjóðerni keppandans var.

Fyrir okkur er það hin fullkomna spegilmynd íslenska hestasamfélagsins: við stöndum saman sem eitt, hjálpum hvort öðru og brennum fyrir málefni íslenska hestsins.

En nú skulum við segja ykkur aðeins meira frá því sem við, Horses of Iceland, vorum að gera á heimsmeistaramótinu.

Á viðburðinum var Horses of Iceland gestgjafi FEIF, IPZV, Icelandair Cargo, WorldFengur, Landsmót Hestamanna 2024, Íslensk.is og Bertha Kvaran Art í tjaldinu okkar á markaðssvæði mótsins. Icelandair Cargo var einnig gestgjafi sameiginlegra samstarfsaðila okkar: Export Hestar, Fákaland Export og Hestvit.

Forsvarsmenn Horses of Iceland verkefnisins hittu áhugafólk um íslenska hestinn og sögðu þeim frá verkefninu og hittu marga sem hafa mögulega áhuga á að gerast samstarfsaðilar að verkefninu á komandi misserum.

Nokkrir viðburðir voru haldnir í tjaldinu okkar eins og lifandi tónlistarviðburður með Stjána Stuð, pylsuveisla á vegum IPZV, samkoma fyrir knapa í reiðinni frá Þýskalandi til Oirschot á vegum IPZV og FEIF, önnur fyrir knapa sem voru í sýndarreiðinni á vegum FEIF og Meet and Greet viðburður sem franska landsliðið stóð fyrir. Horses of Iceland stóð einnig fyrir kynningu á Hestafræðideild Háskólans á Hólum þar sem Þórarinn Eymundsson meistari FT kynnti skólann og boðið var upp á íslenskan harðfisk, vatn, nammi og kaldan hollenskan bjór.

Við viljum þakka öllum samstarfsaðilum okkar fyrir frábæran tíma og þakka sérstaklega þeim sem gáfu verðlaun í getraunina okkar, en þeir gerðu okkur kleift að gleðja 11 heppna vinningshafa og það er alltaf ánægjulegt.

Við viljum líka þakka Icelandic Glacial vatn fyrir að gefa okkur íslenskt vatn til að dreifa á meðan á viðburðinum stóð. Með þeirra stuðningu gátum við hresst og vökvað gesti og gangandi á heitustu dögum mótsins.

Við hlökkum nú þegar til næsta heimsmeistaramóts sem fram fer í Sviss árið 2025!

 

Til að sjá úrslit frá heimsmeistaramótinu, vinsamlegast smelltu hér.

Til að skoða meira um heimsmeistaramótið 2025 og fleira, ýttu hér.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: