Það stefnir í að árið 2020 verði besta ár áratugarins í hrossaútflutningi og mikil bjartsýni ríkir í greininni. Það sem af er ári hafa hátt í 1500 hross verið flutt úr landi.

Það stefnir í að árið 2020 verði metár í hrossaútflutningi þegar litið er til síðasta áratugar og mikil bjartsýni ríkir í greininni. Samkvæmt Worldfengi, upprunaættbók íslenska hestsins, hafa 1474 hross verið flutt úr landi það sem af er ári. Allt árið í fyrra voru 1509 hross flutt til erlendra markaða, fleiri en síðustu níu árin á undan, og nú stefnir í að 2020 verði besta útflutningsár áratugarins. Frá janúar til september hafa 317 fleiri hestar verið fluttir úr landi miðað við sama tímabil og í fyrra, sem er aukning upp á 36%. Sem fyrr eru flest hross flutt til Þýskalands og Norðurlandanna, en Austurríki, Sviss, Holland og Bandaríkin koma líka sterk inn.

Bændablaðið fjallar um málið í forsíðufrétt sinni 22. október. Þar segir Mikael Tal Grétarsson, yfirmaður útflutningssviðs Icelandair Cargo, að gengisfall krónunnar sé sennilega aðalskýringin á þessari aukningu. Ennfremur telur hann heimsfaraldurinn hafa jákvæð áhrif á greinina vegna þess að fólk eyðir minni pening í ferðalög og hefur meiri tíma til að sinna áhugamálum sínum. Einnig hefur markaðsstarf Horses of Iceland (HOI) hjálpað til við að vekja athygli og áhuga á íslenska hestinum. Síðustu fjögur ár hefur HOI unnið ötullega að því að kynna kosti íslenska hestsins á samfélagsmiðlum, í blaðagreinum, í sjónvarpsþáttum, á sýningum og víðar, og hafa kynningarnar náð til hundruð milljóna manna um allan heim. Mikael bætir við að Icelandair Cargo sé að bregðast við aukinni sölu og auknum útflutningi með því að kaupa fleiri sérútbúna gáma fyrir hrossaútflutning.

Þórunn Eggertsdóttir, einn eigenda Fákalands export, tekur undir með Mikael. Auk þess bendir hún á að stjórnvöld í sumum löndum, m.a. í Þýskalandi, lækkuðu virðisaukaskatt úr 19% í 16% í kjölfar COVID-19, sem hjálpar til við sölu á hrossum, en stærsti markaðurinn fyrir íslensk hross er í Þýskalandi. Hún vill þó taka fram að útflutningur jafngildir ekki sölu, því það eru margir erlendir aðilar sem rækta hross á Íslandi sem grípa tækifærið þegar gengið er lágt til að flytja hrossin sín út. Frá því að hún og meðeigendur hennar hófu rekstur útflutningsfyrirtækisins fyrir þremur árum hafa þau orðið vör við mikla uppsveiflu. „Frá því að við byrjuðum höfum við tvöfaldað útflutninginn og erum komin með í heildina yfir 300 hross sem hafa farið frá okkur. Fyrsta árið fluttum við um 40 hross út en á þessu ári er mikil aukning.“ Þórunn segir þau hafa flutt út fleiri en 200 hross það sem af er ári. Þótt það gangi vel núna leggur hún áherslu á að það tekur tíma að byggja upp fyrirtæki í hrossaútflutningi og öðlast traust viðskiptavina. Hún segir gott orð fara af íslenska hestinum erlendis.

Eysteinn Leifsson.

Eysteinn Leifsson hefur flutt út hross í nærri 30 ár undir merkjum Export Hesta og upplifað hæðir og lægðir í hrossaútflutningi. Eysteinn var hóflega bjartsýnn þegar HOI tók hann tali í apríl og ljóst var að árið 2020 hefði farið vel af stað. Fyrsta ársfjórðunginn voru 494 hross flutt úr landi, sem var 17% aukning frá fyrsta ársfjórðungi 2019. „Ég verð mjög glaður ef við verðum á pari við síðasta ár. Við getum varla farið fram á meira,“ sagði hann þá. Nú er stutt í að það takmark náist og hefur útflutningurinn farið fram úr vonum hans. „Já, hann hefur gert það miðað við þær aðstæður í heiminum í miðjum COVID faraldri og þá staðreynd að erfitt reynist fyrir erlenda kaupmenn að koma til landsins að sjá og prófa hross.“ Hann spáir því að rúmlega 2000 hross verði flutt út áður en árið er liðið. „Það væri algjörlega frábært ef það tækist.“

Í grein Bændablaðsins segir segir Eysteinn gott hljóð vera í hestamönnum og almenna bjartsýni ríkja í greininni. „Það var ekkert Landsmót og ýmislegt fallið niður en við hestamenn getum ekki kvartað því við getum stundað okkar íþrótt og áhugamál. Fólk ferðaðist á hestum sem aldrei fyrr í sumar.“ Hann segir útflutning hrossa hafa verið að aukast undanfarin ár. „Ég hef flutt út í kringum 400 hross á ári, allt frá folöldum upp í stórættuð og hátt dæmd kynbóta- og keppnishross, þannig að það er öll flóran í gangi.“ Eysteinn bætir við að gæðastaðallinn hafi hækkað í greininni; nú eru t.d. öll hross örmerkt. Jafnvægi hefur skapast milli framboðs og eftirspurnar í hrossarækt.

Eysteinn segir HOI að hann líti björtum augum á framtíðina. „Ég held og vona að það séu bjartir tímar framundan, auðvitað er það alltaf háð ákveðnum aðstæðum í heiminum, svo sem gengi krónunnar og annað, en við höfum staðið vel og markvisst að kynningu á íslenska hestinum og þar vegur þáttur HOI þungt.“

Samantekt: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Gunnar Freyr Gunnarsson.  

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: