Í heimildarþáttaröðinni Equus Worldwide er fjallað um fimm hrossakyn á mismunandi stöðum í heiminum. Þátturinn Equus Worldwide Iceland var sýndur á alþjóðlegu sjónvarpsstöðinni Horse & Country TV 14. maí.
Í heimildarþáttaröðinni Equus Worldwide er fjallað um fimm hrossakyn á mismunandi stöðum í heiminum; uppruna þeirra, þróun í gegnum aldirnar og hlutverk fyrr og nú. Fyrir utan íslenska hestinn, eru hrossakyn á Indlandi, í Afríku og Norður- og Suður-Ameríku tekin fyrir. 
 
Þátturinn Equus Worldwide Iceland, sem er um 20 mínútur að lengd, var sýndur á alþjóðlegu sjónvarpsstöðinni Horse & Country TV 14. maí og nær hann til ríflega 45 milljóna áhorfenda um allan heim.
 
 
Tökulið þáttarins kom til Íslands í mars síðastliðnum. Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, skipulagði dagskrá samkvæmt óskum framleiðanda og útvegaði viðmælendur. Í þættinum var Hólaskóli heimsóttur og þar sögðu deildarstjóri Hestafræðideildar, Sveinn Ragnarsson, og yfirreiðkennari Mette Mannseth frá eiginleikum íslenska hestsins og náminu. Einnig var fjallað um hestaferðir, sem boðið er upp á frá Hvammi II í Vatnsdal, og hrossaræktarbúið Hafsteinsstaði í Skagafirði. Síðan fylgdist tökuliðið með keppni í ístölti í Mývatn Open – Horses on Ice. Rauði þráðurinn í þættinum eru hin nánu tengsl Íslendinga við hestana sína og landið. 
 
Leikstjóri og framleiðandi Equus Worldwide Iceland, Philippa Armsby-Ward, segir: „Ég hef ferðast til margra landa vinnu minnar vegna, en þetta var í fyrsta skipti sem ég kom til Íslands. Ég varð hissa á hlýju og vingjarnleika allra sem við hittum. Upplifunin var yndisleg: Fólkið, menningin og hestarnir. Ég mun örugglega koma aftur við fyrsta tækifæri. Mig langar að ríða frá norðri til suðurs að sumri til – það virkar eins og töfrandi hestaferð.“
 
Jelena segir að þátturinn muni hafa mikil áhrif á markaðssetningu íslenska hestsins. „Eitt af markmiðum okkar með Horses of Iceland er að vekja athygli á eiginleikum íslenska hestsins og á samfélaginu okkar meðal eigenda og reiðmanna annarra hrossakynja, auk almennings. Við lítum á þennan heimildarþátt sem kjörið tækifæri til að koma skilaboðum okkar á framfæri og við erum mjög hrifin af útkomunni.“
 
Hér er hægt að horfa á stiklu úr þættinum.
 
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í gegnum streymi á vefsíðunni www.horseandcountry.tv.

Deila: