Horses of Iceland kynnti íslenska hestinn ötullega á einni af stærstu hestasýningum Svíþjóðar sem haldin var í Stokkhólmi 28. nóvember til 1. desember. Atriðin með íslenska hestinum vöktu mikla athygli og svo fór að hann var kjörinn vinsælasta hrossakyn sýningarinnar!

Íslenski hesturinn var vel kynntur á Sweden International Horse Show sem fór fram í Svíþjóð þarsíðustu helgi. Sýningin er ein sú stærsta í Svíþjóð og laðar að um 80 þúsund gesti. Horses of Iceland hefur undanfarin þrjú ár verið í samstarfi við SIF (Svenska Islandshästförbundet), samtök íslenska hestsins í Svíðþjóð, varðandi dagskrá og og kynningarbás fyrir íslenska hestinn á sýningunni. Í básnum var m.a. hægt að vinna flugmiða með Icelandair til Íslands og hestaferð á Íslandi í boði Íslandshesta. Einnig voru til sýnis myndbönd af íslenska hestinum, bæklingar og kynningarefni frá samstarfsaðilum, sýndarveruleikagleraugu þar sem hesturinn er sýndur í fallegri náttúru o.m.fl. Auk þess voru á sýningunni nokkur önnur fyrirtæki og aðilar sem kynntu vörur og þjónustu tengdar íslenska hestinum.

Á sýningunni í ár var kynning íslenska hestsins enn viðameiri en áður. Haldin var töltkeppni á stóra sviðinu, en aðalstyrktaraðilar keppninnar voru Horses of Iceland ásamt Uhip (sænskur hestavöruframleiðandi). Átta knapar á heimsmælikvarða tóku þátt, en það voru: Jóhann R. Skúlason (IS), Katie Brumpton Sundin (FI), Gabrielle Severinsen (NO), Eyjólfur Þorsteinsson (SE), Lisa Drath (DE), Bernt Severinsen (NO), Vignir Jónasson (SE) and Anne Baslev (DK).

Svo fór að heimsmeistararnir Jóhann R. Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum stóðu uppi sem öruggir sigurvegarar með lokaeinkunnina 9.11, annar var Vignir Jónasson með 8.22 og þriðji var Eyjólfur Þorsteinsson með 7.83. Fimm alþjóðlegir dómarar dæmdu keppnina. Það var svo frú Estrid Brekkan, sendiherra Íslands í Svíþjóð, sem veitti verðlaunin. Gaman er að segja frá því að töltkeppni íslenska hestsins er eitt af fáum atriðum sýningarinnar sem er sýnt beint í sænska ríkissjónvarpinu, útsending sem nær til rúmlega milljón áhorfenda. Á stóra sviðinu sýndi íslenski hesturinn einnig munsturreið og fram komu hæst dæmdu stóðhestar Svíþjóðar í hverjum aldursflokki.

Horses of Iceland stóð einnig fyrir skemmtilegri og öðruvísi sýnikennslu sem bar heitið “A horse is a horse”. Það var frægur dressúr-þjálfari, Julio Borba, sem kenndi tveimur knöpum, þeim Olil Amble sem reið Álffinni frá Syðri-Gegnishólum og Kerstin Dahlberg sem reið hesti af Lusitano kyni. Þær sýndu fimiæfingar á mismunandi gangtegundum og hvaða áhrif æfingarnar höfðu á hestana. Í lokin skiptu knaparnir svo um hesta og var fróðlegt að fylgjast með þeim sitja hestana og hversu vel það gekk þótt þeir væru af öðru kyni en þær voru vanar.

Sænsku ræktunarsamtökin (SIF Avel) héldu fyrirlestur þar sem Olil Amble sat fyrir svörum um hver væri lykillinn að því að rækta íslenskan gæðing. Höfðinginn Mökkur frá Varmalæk, sem er orðinn 34 vetra gamall, var til sýnis og naut mikilla vinsælla, sérstaklega hjá yngstu kynslóðinni.

Á sýningunni komu fram og eru til sýnis öll þau hestakyn sem eru í Svíþjóð. Á meðal þeirra er haldin rafræn vinsældakosning og í ár var íslenski hesturinn kjörinn vinsælasta hestakynið á sýningunni – en þetta er í annað skipti sem íslenski hesturinn hlýtur þann heiður.

Texti: Þórdís Anna Gylfadóttir. Myndir: Mette Sattrup.

Myndasafn

0 0 0 0 0

Deila: