Við hér á Nýja Sjálandi sem höfum uppgötvað og orðið ástfangin af litla en kröftuga íslenska hestinum, hættir til að láta okkur dreyma stöðugt um að ferðast til Íslands til að upplifa margra daga hestaferð um fallegt, hrjóstrugt landslagið á töltandi hesti.

Miðað við þá staðreynd að við gætum ekki verið stödd mikið lengra frá Íslandi (jæja, kannski Suðurskautslandið?) og að COVID hefur herjað á heimsbyggðina alla, hefur þetta verið fjarlægur draumur fyrir marga. Þess vegna var það að hópur íslenskra hesteigenda hérlendis ákvað að finna svipaða upplifun á heimaslóðum og skipuleggja þriggja daga hestaferð á hinni töfrandi Island Hills Station á Hurunui hálendinu á Suðureyju Nýja Sjálands. Ekki alveg sama einstaka landslag og þú finnur á Íslandi, en þessi staðsetning býður upp á sanna nýsjálenska reiðtúra, fjölbreytt landslag, töluverða hækkun og fullt af náttúrulegum hindrunum á leiðinni. Þetta hljómaði eins og það myndi virkilega reyna á litlu íslensku hestana okkar!

Í hópnum okkar voru fjórtán knapar, þar af fjórir undir 14 ára, sem riðu ellefu íslenskum og þremur „venjulegum“ hestum. Fæstir úr hópnum höfðu farið í margra daga hestaferð áður og voru í byrjun svolítið hræddir við áskoranirnar í ferðinni! Við stóðum strax frammi fyrir fyrstu áskoruninni eða um 1,5 km áður en við komum á upphafsstað. Þar þurftum við að leiða hestana yfir mjög mjóa hengibrú, þar sem vaðið sem við áttum að fara yfir ána á, var ófært eftir mjög mikla úrkomu dagana á undan. Þetta atvik setti svo sannarlega tónin fyrir það sem átti eftir að koma og gerði okkur smá skelkuð í leiðinni!

Eftir góðan nætursvefn í Cook House (100 ára gömlum rúningamannahúsum sem breytt var í gistiheimili) og leiðbeiningar frá Shaun stöðvarstjóra, lögðum við af stað í fyrsta áfanga ferðarinnar, 18 km í gegnum gróskumikið landslagið, þrönga stíga og árbakka, yfir fjölda lækja og áa, í gegnum hlið á landareignum bænda og hittum þar forvitnar hjarðir af nautgripum. Eftir smá hik við fyrstu ána, tóku nokkrir hugrakkir litlir íslenskir hestar stökkið og leiddu hópinn yfir. Eftir það voru árnar leikur einn og jafnvel eitthvað frekar spennandi og skemmtilegt! Veðrið var dásamlegt og við nutum fallegs útsýnis, horfðum yfir túnin og hagana og árnar skríða í gegnum landslagið langt fyrir neðan okkur. Eftir góðar sex klukkustundir, þar á meðal hádegishlé á miðri leið, komum við til Valley Creek skálans annað kvöldið okkar. Skálinn stóð í gróðurmiklu og fallegu umhverfi við kristaltæran læk. Venjulega gistir göngufólk í þessum skála og því ekki gert ráð fyrir hestum í girðingum. Þetta vissum við og vorum því undirbúin og settum upp létta girðingu með staurum og rafmagnsvír sem var þó ekkert rafmagn á! Við gáfum hestunum hey fyrir nóttina og þeir höfðu greiðan aðgang að vatni í læknum tæra. Svo krossuðum við fingur í von um að girðingin myndi halda þeim þarna alla nóttina og skoluðum af okkur ferðarykið og borðuðum góðan mat eftir langan dag í hnakknum.

Morguninn eftir, okkur til mikils léttis, hafði enginn hestanna uppgötvað að rafmagnsvírinn var ekki með rafmagni á og voru allir þarna enn á sama stað, úthvíldir fyrir 12 km ferðina til baka. Í þetta skiptið leiddi slóðinn okkur aðra leið sem lá yfir brattan kamb og áttu margir (bæði knapar og hestar, aðallega knapar!) erfitt með brekkuna upp. Svona þjálfun er alla jafna ekki hluti af okkar hefðbundnu þjálfun heima fyrir, svo við stigum af baki og teymdum hestana og tókum margar pásur á leiðinni. Íslensku hestarnir sem voru sjálfum sér líkir, vildu ólmir halda áfram og skildu ekki þennan hægagang. Litla merin mín dró mig bókstaflega upp brekkuna og virtist segja: „Komdu, eftir hverju ertu að bíða?“

Eftir að hafa náð andanum og gert gott hlé á toppnum, fórum við niður hinum megin eftir hlykkjóttum stíg, gegnum klettaborg undir heitri miðdegissólinni og yfir mjóa slóða sem hlykkjuðust í gegnum blómgaða manuka runna og framhjá býflugnabúum, þar til við komumst loksins aftur að gróskumiklu, grænu túnunum og nautgripunum. Þar nutum við sem vorum á íslensku hestunum töltsins mjúka og yngstu meðlimir hópsins á „venjulegu“ hestunum voru á gamla, góða hæga stökkinu.

Þegar til baka í Cook House var komið var hestunum sleppt og við fengum vel verðskuldaðan kaldan drykk áður en við pökkuðum saman. Bílarnir voru enn á sama stað og í upphafi ferðarinnar, á hinum árbakkanum 1,5 km neðan við Cook House. Í þetta skiptið hikaði enginn að fara yfir ána og ungu knaparnir skemmtu sér konunglega við að ríða hestunum til baka yfir ána og koma þeim á bílana.

Þegar við fórum yfir ferðina eftir á, vorum við öll sammála um hvað þetta var yndisleg upplifun og hvernig íslensku ​​hestarnir okkar tóku öllu með jafnaðargeði, héldu áfram og gerðu það sem við báðum þá um að gera, sama hversu ókunnugt ástandið var þeim. Að vera ræktaður og alinn upp á Nýja Sjálandi, hafa íslensku ​​hestarnir ekki verið aldir upp við frjálsræðið eins og jafnaldrar þeirra sem alast upp í hrikalegu og hörðu umhverfi heimalands síns Íslands. Það sýnir hins vegar að sama hvar þeir eru fæddir þá er styrkleikinn, krafturinn og þetta dæmigerða æðruleysi í erfðaefni þeirra, sem gerir þá harðgera, áreiðanlega og fullkomna félaga fyrir ferðir sem þessa. Bættu við þetta þeirra ofurþægilegu aukagangtegundum, framsækni og jákvæða vinnuvilja, þreki, þeirra hæglátu, blíðu skapgerð og síðast en ekki síst fallega langa faxi, lítur út fyrir að íslenski hesturinn njóti sannarlega vaxandi vinsælda á Nýja Sjálandi sem og í nágrannaríkinu Ástralíu.

Íslenskir​​ hestar á Nýja Sjálandi

Íslenski hesturinn er enn sjaldgæft hestakyn á Nýja Sjálandi, með tæplega tvö hundruð hesta í landinu en fjöldinn fer hægt og rólega upp á við með fæðingu nýrra folalda á hverju ári og einstaka sinnum innfluttum hrossum frá útlöndum.

Íslenska hestafélagið New Zealand Inc. (IceHNZ) hefur umsjón með íslenska hestinum sem felur m.a. í sér ættbók hestsins á Nýja Sjálandi í samræmi við alþjóðlega ræktunarstaðla, stuðlar að framgangi íslenska hestakynsins, veitir fræðslu, fyrirlestra og heldur viðburði fyrir íslenska hestaeigendur og aðdáendur um allt land.

Frekari upplýsingar um íslenska hestinn í Nýja Sjálandi má finna á vef IceHNZ eða á Facebook síðu.

Texti/breytingar: Sofia Hansrod

Myndir: sjá hér að neðan

Myndir:

 1. Farið yfir hengibrúna eftir að ljóst varð að vaðið á ánni var ófært / Sofia Hansrod
 2. Útsýnið yfir Island Hills station valley / Sofia Hansrod
 3. Ungu knaparnir skemmtu sér konunglega og stóðu sig vel / Leneke Cox
 4. Hádegishlé í grasinu / Sofia Hansrod
 5. Hestur og knapi / Sofia Hansrod
 6. Valley Creek Hut; gistingin aðra nóttina / Sofia Hansrod
 7. Farið yfir lækinn  / Sofia Hansrod
 8. Hádegisverður / Jemma Currey
 9. Útsýnið úr hnakknum / Sally Sim
 10. Áin / Sofia Hansrod
 11. Hestunum riðið til baka yfir ána / Anna Tarver
 12. Kæling eftir langan og heitan dag  / Sofia Hansrod

Greininni hefur verið breytt af höfundi til birtingar á vef Horses of Iceland. Hún var upphaflega skrifuð fyrir og birt í New Zealand Horse & Pony Magazine, apríl 2022.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: