Við höfum framlengt forsölu aðgöngumiða til 02.02.2022. Skoðið miða hér

Magnús Benediktsson var í haust ráðinn framkvæmdastjóri Landsmóts 2022 á Hellu. Magnús hefur komið að ýmsum verkefnum tengdum hestamennsku undanfarin ár og getið sér orð fyrir að vera hugmyndaríkur viðburðastjórnandi og snjall samningamaður. Hann er einn af útgefendum Stóðhestabókarinnar, sem sló rækilega í gegn á sínum tíma, var framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Spretts í 5 ár og stofnaði Áhugamannadeildina í hestaíþróttum, var framkvæmdastjóri FM2021 í Borgarnesi og er framkvæmdastjóri og einn eigenda Eiðfaxa.

Breyttir tímar

Magnús er Rangæingur, ólst upp í Skarði í Landsveit og nefnir Kristinn Guðnason í Árbæjarhjáleigu (áður í Skarði) jafnan fóstra sinn. Eins og fleiri hraustir strákar sem höfðu viðkomu í Skarði átti Magnús litríkan feril sem knapi á stökkhestum og var ekki hár í loftinu þegar hann hleypti á fyrstu kappreiðunum. Hann vann við tamningar í nokkur ár áður en hann flutti til Reykjavíkur þar sem hann átti og rak eftirsóttan veitingastað. Margir vænta þess að nýir vindar muni blása á LM2022 á Hellu. En að taka að sér verkstjórn á svo viðamiklum viðburði sem Landsmót hestamanna er hlýtur að vera áskorun sem þarfnast umhugsunar.

„Það er alveg rétt, það vita allir sem hafa komið nærri svona stórum viðburðum að þetta er ekki hrist fram úr erminni. Ég og konan mín, Rakel Ýr Björnsdóttir, eignuðumst okkar þriðja barn fyrr á árinu, þannig að það er alveg nóg að gera heima ef út í það er farið. Eftir að hafa rætt þetta fram og til baka féllst konan mín á að ég myndi slá til. 

Ég hef lengi haft augastað á Landsmótinu sem spennandi verkefni og talið að það mætti fríska það upp, gera það meira spennandi. Það hefur verið í sömu skorðum býsna lengi og aðsóknin heldur verið að dala, þótt Landsmótin á Hellu séu nokkur undantekning hvað það varðar.“

Það er svo margt í boði

„Flestir eru sammála um að það séu nokkrar samverkandi ástæður fyrir því að aðsóknin á landsmótin okkar hefur verið að minnka,“ segir Magnús. „Í fyrsta lagi þá hefur það vafalítið haft áhrif á aðsókn þegar farið var að halda Landsmót á tveggja ára fresti, en ekki fjögurra eins og áður. Fleiri hestasýningar og beinar útsendingar frá viðburðum þar sem bestu hross landsins koma fram gera það að verkum að úrslit landsmótanna eru fyrirsjáanlegri; fólk er búið að sjá hrossin áður, jafnvel margoft, og spenningurinn fyrir að vera á staðnum er einfaldlega ekki eins mikill. Til viðbótar hefur svo bæst við að nú eru allar kynbótasýningar teknar upp, hægt að horfa á þær í beinni og síðan eru þær aðgengilegar á www.alendis.is. 

Síðast en ekki síst þá erum við að keppa við marga aðra fjölskylduviðburði á hverju sumri og þar á ég við allar þær bæjarhátíðir, fótboltamót og aðrar uppákomur sem hafa fest sig í sessi á undanförnum árum og áratugum. Það er ekki lengur bara Landsmót hestamanna og verslunarmannahelgin sem er í boði. Það má í raun segja að það sé ótrúlegt hvað landsmótin hafa þó verið vel sótt miðað við alla þá afþreyingu sem í boði er. En til að halda í horfinu, og helst bæta í, þurfum við að aðlaga Landsmót hestamanna að breyttum tímum og fá fólk til að velja það frekar en aðra viðburði.“

Engar kúvendingar

„Það stendur ekki til að gera kúvendingar á dagskrá Landsmóts hestamanna, svo það sé alveg skýrt, enda hef ég enga heimild til þess og það væri ekki skynsamlegt,“ segir Magnús. „Dagskráin verður með svipuðu sniði og áður. Gæðingakeppnin er drottning Landsmóts hestamanna og því verður ekkert breytt. Hún verður á sínum stað óhögguð með sömu inntökuskilyrðum og þátttökurétti og verið hefur. Sama er að segja um kynbótasýningarnar. Ég hef hins vegar lagt til breytingar sem miða að því að gera dagskrána fjölskylduvænni og hef fengið til liðs við okkur Jón Gunnar Geirdal, sem meðal annars hefur verið markaðsstjóri Þjóðhátíðar í Eyjum í ellefu ár, og framboðs Framsóknarflokksins í Kraganum í Reykjavík. Mjög flinkur markaðsmaður.

Það sem við erum með á prjónunum er að koma með meiri tónlist inn í dagskrána, meira af fjölskylduvænni afþreyingu, og taka inn fjórar greinar úr Sportinu til viðbótar við töltkeppnina, sem verið hefur fastur liður í dagskrá frá því á LM1978 á Þingvöllum. Og síðast en ekki síst þá ætlum við að reyna að minnka bilið á milli hins almenna hestamanns og hrossabóndans.

Laugardagurinn verður lokadagur mótsins og lýkur með úrslitum í A flokki gæðinga. Um kvöldið verður kvöldvaka þar sem nokkrir bestu tónlistarmenn landsins munu skemmta. Á sunnudeginum mun verða opið hús hjá hrossabændum á Suðurlandi. Fólk getur þá á heimleiðinni tekið á sig krók og heimsótt þau bú sem það hefur áhuga á, heilsað upp á ræktendur og tamningafólk, fengið að sjá fræg keppnishross, og svo framvegis. Samfara þessu vonumst við líka til að losna við þá miklu umferðarteppu sem hefur myndast í mótslok þegar allir ætla út af svæðinu á sama tíma.“

Sportið á erindi á LM

Það hefur spurst út að ætlunin sé að taka fleiri greinar úr Sportinu á dagskrá mótsins. Ýmsir hvá og spyrja hvort ætlunin sé að breyta Landsmótinu í íþróttamót; hvort ekki sé nóg af þeim. Magnús hefur aðra sýn á málið.

„Það má í raun frekar spyrja af hverju Sportið er ekki löngu komið á dagskrá Landsmóts, meira en verið hefur. Töltið er búið að vera inni síðan 1978 og hefur oftast verið það atriði sem mest áhorf hefur fengið. Tilraun sem gerð var á LM1982 á Vindheimamelum þegar útlendum knöpum voru útveguð góð keppnishross og keppt í nokkrum íþróttagreinum hlaut mjög góðan hljómgrunn, og síðan aftur á LM1990 á sama stað. Það þarf heldur ekki að deila um það að Sportið er vinsælasta keppnisformið erlendis og hér heima höfum við séð stökkbreytingu á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks. Það er engin spurning að íþróttakeppni á Landsmóti mun fá áhorf og draga víðari hóp fólks á mótið. Það tryggir líka að við munum sjá öll bestu hross landsins á Landsmótinu, en eins og við vitum þá hentar það ekki öllum hrossum að keppa í gæðingakeppninni þótt þau geti svo unnið heimsmeistaramót árið á eftir.“

Höldum okkar striki

LM2020 á Hellu var slegið af vegna Covid-19. Nú lítur út fyrir að faraldurinn sé ekki jafn auðveldur viðureignar og menn töldu í fyrstu. Er þetta ekki áhyggjuefni?

„Við erum auðvitað meðvituð um Covid og það er engin trygging fyrir því að faraldurinn verði genginn niður í vor. En það þýðir heldur ekkert að láta kveða sig í kútinn fyrir fram. Við höldum ótrauð áfram og látum hverjum degi nægja sína þjáningu. Hjá okkur er aðeins eitt í boði: Það verður frábært Landsmót hestamanna á Hellu næsta sumar,“ segir Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri LM2022.

Nánari upplýsingar um Landsmót hestamanna 2022 eru á www.landsmot.is

Deila: