Það er auðvelt að sigra heiminn á hestbaki sagði Ghengis Khan (1162-1227) en hann var stórkan og stofnandi Mongólaveldisins og nútímaríkið Mongólía lítur á hann sem stofnföður sinn. Á sínum valdatíma byggði Ghengis Khan upp póstkerfi þar sem sendiboðar hans gátu farið ríðandi á milli stöðva frá höfuðborginni Kharkhorin og allt að Kaspíahafi á nokkrum dögum.

Aníta Margrét Aradóttir fór einmitt til Mongólíu fyrir sjö árum og tók þátt í lengstu, hættulegustu og erfiðustu þolkappreið í heimi, The Mongol Derby, og reið þar mongólskum hestum 1000 km á 10 dögum.

Aníta er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og hún hefur stundað hestamennsku í Reykjavík síðan hún var barn, þrátt fyrir að enginn í hennar fjölskyldu hafi verið í hestamennsku. Svo bakterían er sjálfsprottin hjá Anítu.

„Eftir að ég tók þátt í þolkappreiðinni í Mongólíu langaði mig að koma á laggirnar svipaðri reið á Íslandi því mér finnst Ísland henta rosalega vel í svona þolkappreið,“ segir Aníta sem lét verða af því að prufukeyra alþjóðlega þolkappreið nú í ágúst. Aníta vinnur hjá Landssambandi hestamannafélaga og kynnti hugmyndina sína fyrir stjórn og starfsfólki þar og fékk þann stuðning sem hún þurfti til að þetta yrði að veruleika og LH lagði til nauðsynlegt starfsfólk og hélt keppnina með stuðningi Cintamani.   

En hver er tilgangurinn með þolkappreið eins og þessari?

„Að vekja áhuga fólks á annars konar keppni á hestum og auka áhuga fólks sem jafnvel er ekki í hestum, því þolreiðar eru einföld og auðskiljanleg íþrótt. Einnig að hefja aftur til vegs og virðingar hið forna aðalsmerki íslenska hestsins, þ.e. þol og úthald. Þá er tilgangurinn að auka áhuga hestamanna á þoli og þreki eigin hesta.”

Þolkappreiðin fór þannig fram að fjögur lið tóku þátt og í hverju liði var einn knapi, tveir aðstoðarmenn og þrír hestar en tveir hestar voru notaðir hvern dag og einn hvíldur. Upphafsstaður var á Lýtingsstöðum í Skagafirði og lá leiðin suður Kjöl og á Skógarhóla á Þingvöllum, alls um 240 km á fjórum dögum. Keppedur riðu tvo leggi á dag sem eru 25-35km hvor. Eftir hvorn legg var púls hests mældur og ef hann var ekki kominn niður í 56 slög á mínútu eða minna eftir 30 mín fékk knapi refsistig sem bættust við tímann og það sama átti við ef vart var við líkamlega áverka. Helgi Sigurðsson dýralæknir var með í för og fylgdist náið með ástandi hestann. Liðin voru þannig að Hermann Árnason hestaferðafrömuður keppti fyrir liðið Hermann hestaferðir, Iðunn Bjarnadóttir keppti fyrir lið Riding Iceland Saltvík og sigraði, Annie Whelan frá USA keppti fyrir Íslandshesta og Musse Hasselvall frá Svíþjóð keppti fyrir Eldhesta. Þau Annie og Musse komu sérstaklega til Íslands til að taka þátt í þessari frumraun í þolkappreiðahaldi á Íslandi. En það er ekki nóg að hafa keppendur og lið, það þarf jú eitthvað af starfsfólki til að láta allt ganga. Það þarf dýralækni, járningamann, tímatökumann og á næsta ári er stefnt að því að bæta við GPS sendum á knapa þannig að hægt verði að fylgjast með keppendum á vefsíðu. 

Það hlýtur að krefjast mikils og góðs undirbúnings að þjálfa hesta og knapa fyrir svona þolkappreið.

„Já, þessi reið var tilraun og það gekk á ýmsu og við lentum í ævintýrum en í heildina gekk mjög vel miðað við það að við runnum frekar blint í sjóinn með þetta verkefni.  Það er ýmislegt sem þarf að lagfæra og breyta og munu allir sem komu að keppninni halda áfram að þróa hugmyndina. Við lærðum ofboðslega mikið af þessu enda var þessi prufureið gerð til að læra. Við lærðum til að mynda það að það er hægt að halda svona reið á Íslandi og við reiknum með þetta gæti orðið mjög vinsælt að koma hingað í þetta landslag og ríða á þessum sterku hestum okkar. Hestarnir sem tóku þátt voru gríðarlega sterkir og komu vel út úr þessu, enda voru þeir allir vanir ferðahestar sem voru búnir að vera í hestaferðum í allt sumar og í mörg ár búnir að hlaupa í hestaferðum. Þeir voru alveg í toppformi og þetta eru miklir „íþróttamenn“ þessir hestar.  Hvað knapann varðar að þá er best að ríða mikið í hestaferðum, það er það sem ég gerði þegar ég var að þjálfa mig fyrir Mongólíu. Gott er líka að stunda annars konar líkamsrækt og fara út að hlaupa. Halda líkamanum á hreyfingu og styrkja hann um leið,“ segir Aníta sem talar augljóslega bæði af reynslu sinni og kunnáttu í þessum efnum.  

Úrslit þolkappreiðarinnar urðu þessi, knapi, tími og lið:

  1. Iðunn Bjarnadóttir á 18 klst og 40 mín – Riding Iceland Saltvík
  2. Annie Whelan frá USA á 18 klst og 52 mín – Íslandshestar
  3. Hermann Árnason á 19 klst og 3 mínútum – Hermann hestaferðir
  4. Musse Hasselvall frá Svíþjóð á 19 klst og 4 mínútum – Eldhestar

„Þolreiðar eru gríðarlega vinsælar erlendis og eru keppendur og áhugafólk um þolreiðar margar milljónir. Það má því segja að markaðurinn sé mjög stór fyrir svona reið á Íslandi. Erlendu þátttakendunum fannst vel takast til og Ísland hefur alla burði til að halda svona keppni og tækifærin eru gríðarleg. Fólk hefur aldrei séð hvað þá riðið í svona landslagi og svo er veðrið líka áhættuþáttur sem gefur þessu enn meiri sjarma í rauninni. Þau riðu í svo miklum vindi á þriðja degi reiðarinnar að þau sögðust aldrei hafa lent í öðru eins,“ segir Aníta hlægjandi og bætti við: „Þau sögðu líka að með þennan sterka hest, íslenskt landslag og umhverfi hefðu Íslendingar alla möguleika á að gera góða hluti með þessa keppnisgrein í framtíðinni.“

Það verður spennandi að fylgjast með þróun þolkappreiða á Íslandi á næstu árum og við óskum LH og öllum aðstandendum til hamingju með frumraunina og góðs gengis með þetta skemmtilega fjöregg í fjölbreyttri flóru keppnisgreina í hestaíþróttum.

Uppfærð frétt 7. desember: nýtt myndskeið um þolreiðina hér

Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir. Myndir: Landssamband hestamannafélaga

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: