Ársskýrsla Horses of Iceland fyrir 2019 hefur verið gefin út. Þar er fjallað um markaðsaðgerðir verkefnisins í fyrra og afrakstur þeirra, gildi og þróun samfélagsmiðla, o.fl.

Horses of Iceland (HOI) hefur gefið út ársskýrslu fyrir 2019. Þar má lesa um áherslur og árangur af markaðsstarfi síðasta ár, allar sýningar og viðburði sem fulltrúar verkefnisins hafa tekið þátt í, sem og verðmætasköpun og þróun fylgjenda á samfélagsmiðlum, en fjöldi þeirra eykst stöðugt.

„Síðastliðin fjögur ár hefur HOI tekið þátt í ótalmörgum aðgerðum til að kynna íslenska hestinn á okkar helstu mörkuðum og aðstoðað við ýmis verkefni annarra aðila sem styðja við vörumerkið „Horses of Iceland – færa þig nær náttúrunni“. Þessi ár hafa verið okkur lærdómsrík og höfum við náð að byggja upp stórt og sterkt samfélag sem mun halda áfram að breiða út boðskapinn okkar um ókomna tíð,“ segir verkefnastjóri HOI, Jelena Ohm. „Við erum afar þakklát þeim samstarfsaðilum sem hafa tekið þátt í verkefninu, og gerðu það að veruleika.“

Árangur markaðsstarfs HOI fyrstu fjögur árin frá stofnun þess, 2016-2019, hefur einnig verið tekinn saman. Hér eru nokkrar markverðar tölur úr skýrslunni:

 • 54.700.000 birtingar á samfélagsmiðlum (e. impressions) 
 • Samanlagt virði þeirra er 72 milljónir 
 • Fjöldi fylgjenda á Facebook og Instagram eru 110.300
 • 1.500.000 sýningargestir sóttu sýningar þar sem HOI var með kynningar 
 • Greinar og þættir í kjölfar blaðamannaheimsókna náðu til rúmlega 290 milljóna
 • Myndbönd verkefnisins fengu samtals yfir 3 milljón spilanir 
 • 70 samstarfsaðilar í 5 löndum hafa gengið til liðs við verkefnið 

Af mörgum hápunktum í fyrra má helst nefna:

 • Alþjóðlegan dag íslenska hestsins, 1. maí 2019. Efnt var til myndbandasamkeppni sem fékk frábærar viðtökur; rúmlega 30 myndbönd voru send inn. Auk þess skipulögðu hestamannafélög um allt land skemmtilega viðburði. Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, hélt HOI gangtegundasýningu og fleiri viðburði í miðborg Reykjavíkur sem vöktu mikla athygli og ánægju.
 • Í júlí 2019 tóku HOI og íslenski hesturinn þátt í Falsterbo Horse Show í Svíþjóð í fyrsta sinn, sem er aldagömul sýning með sterkar rætur í alþjóðlega hestaheiminum og stærsti viðburður FEI (alþjóðasamtaka hestaíþrótta) í Skandinavíu.
 • HOI tók einnig þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín, Equine Affaire í Bandaríkjunum og Sweden International Horse Show. Auk þess var HOI boðið á World Horse Culture Forum í Kína. Kínversk sendinefnd hefur áhuga á að koma til landsins til að kynna sér íslenska hestamenningu nánar.
 • Alþjóðlegir fjölmiðlar hafa fjallað um íslenska hestinn eftir heimsókn til landsins. Sem dæmi FEI TV gerði tvo heimildarþætti, sem voru sendir út í febrúar 2019, en útsendingarnar ná til um 240 milljóna manna. Fjallað var ístöltmótið Mývatn Open og Hólaskóla í heimildarþættinum Equus Worldwide á Horse & Country sem nær til 45 milljóna áskrifenda. Greinar um Laufskálaréttir birtust m.a. á vefsíðum CNN Travel og Metro Online (stærsta vefmiðilsins í Bretlandi).

Upphaflegi samstarfssamningurinn sem HOI gerði við ríkið til fjögurra ára rann út í árslok 2019. Hann hefur nú formlega verið framlengdur um 18 mánuði, en Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og fulltrúar HOI skrifuðu undir samninginn 2. apríl.

Unnið er að gerð nýs langtímasamnings svo HOI geti haldið þessu mikilvæga markaðsstarfi áfram um ókominn tíma.

Nánar má lesa um áherslur og árangur verkefnisins í ársskýrslunni.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson. 

Deila: