Matvælastofnun biður hestamenn að dreifa boðskapnum um smitvarnir sem fram kemur í nýbirtu myndbandi til að standa vörð um heilbrigði íslenska hestsins.

Í nýju myndbandi frá Matvælastofnun (MAST) eru ferðamenn hvattir til þess að standa vörð um heilbrigði íslenskra dýra. Mikilvægt er að hestamenn komi í hreinum fatnaði og skóm til landsins eftir dvöl erlendis, einkum ef þeir voru í umhverfi hesta. Reiðfatnað skal sótthreinsa samkvæmt leiðbeiningum MAST og bannað er að taka notaðan reiðbúnað s.s. hnakka, beisli, múla, hlífar, dýnur, yfirbreiðslur, píska o.s.frv. eða notaða reiðhanska með sér til landsins. Jafnframt eru ferðamenn hvattir til að koma ekki með dýraafurðir til landsins.

„Smitefni erlendis frá geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. MAST biður hestamenn að dreifa myndbandinu sem víðast, enda eru reglur um smitvarnir ekki síst hugsaðar til að viðhalda heilbrigði íslenska hrossastofnsins. Stöndum saman vörð um heilbrigði íslenska hestsins!“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir.

Myndbandinu má deila hér, en það má einnig finna undir „Myndbönd“ á horsesoficeland.is. 

Nánari upplýsingar um smitvarnir má finna á vefsíðu stofnunarinnar.

Myndir: Christiane Slawik.

Myndasafn

0 0 0

Deila: