Stoltir knapar á íslenskum hestum riðu í „mark“ í bænum Ystad á Skáni í Suður-Svíþjóð þann 16. ágúst síðastliðinn og luku þar með 55-daga boðreið um landið endilangt.

Það er 16. ágúst, sólríkur sumardagur á Skáni. Í Ystad stansar fólk sem á leið um miðbæinn og fylgist hrifið með fagurri fylkingu 29 íslenskra hesta og nærri því jafn margra reiðmanna. Þeir veifa íslenskum og sænskum fánum glaðir í bragði. Tveir ríðandi lögreglumenn fara fremstir og lestina rekur kona í hestvagni. Tónlistarfólk leikur sænsk þjóðlög og tvö börn spila á fiðlu á hestbaki!Stoltir knapar ríða um götur Ystad. Þessir veifa fána Ófeigs, samtaka íslenska hestsins í Suður-Svíþjóð. Mynd: Eva Larsson.

Þetta var sérstakur gleðidagur hjá Marie Svensson, formanni frístundareiðdeildar sænsku Íslandshestasamtakanna (SIF). „Þetta var afar tilfinningaþrungið. Ég var með kökk í hálsinum og tár í augunum. Ég var með blendnar tilfinningar, bæði mjög stolt og fegin,“ segir hún þegar við heyrum í henni tveimur vikum eftir stóru stundina. Reiðin um Ystad var lokaáfangi Sverigeritten, 1748-km langrar 55-daga boðreiðar frá nyrsta til syðsta hluta Svíþjóðar.

„Þetta var mjög hátíðlegt. Fólk hafði safnast saman beggja vegna götunnar sem við riðum um. Mér leið svolítið eins og ég væri konungborin, að veifa til áhorfenda frá hestbaki. Þegar við riðum í gegnum gamla bæinn í Ystad með þröngum, hellulögðum götum magnaðist hljóðið upp. Það var afar áhrifaríkt og kraftmikið.“ Marie reið berbakt. „Mig langaði til að sýna bláa litinn í undirdýnunni; sænska fánalitinn,“ útskýrir hún.

Jenny André, sem ók hestvagninum, hafði málað íslenska fánann á Glóa, gráa íslenska hestinn sinn. „Mig langaði að sýna fram á fjölhæfni hrossakynsins, en fæstir íslenskir hestar draga hestvagna,“ sagði hún blaðamanni Ystad Allehanda. En íslenskir hestar eru þó greinilega vel færir um að draga hestvagna og þeir eru fullkomnir fyrir hestaferðir, eins og staðfest var í Sverigeritten. „Að mínu mati er íslenski hesturinn glaðlynt, léttlynt, vinnusamt og vingjarnlegt hrossakyn, sem kvartar ekki, gerir ekki mál úr hlutunum og er besta og vinsamlegasta „farartækið til utanvegaaksturs“ sem til er!“ sagði Marie okkur í júní, áður en ferðin hófst.Marie þakkar öllum þátttakendum fyrir samvinnuna. Mynd: Eva Larsson.

Fyrsti hópur reiðmanna lagði af stað þvert yfir Gotland, stærstu eyju Svíþjóðar, þann 13. júní. Næsti hópur við „keflinu“ (farsíma) í Kiruna, nyrsta hluta landsins. Riðið var í hléum hér og þar um landshlutann og síðan hélt ferðin nokkurn veginn beint áfram frá Sundsvall til Ystad.

Marie skipulagði ferðina ásamt 17 Íslandshestafélögum af öllu landinu og einn af hennar persónulegu hápunktum var að hitta allt fólkið sem hún hafði verið í samskiptum við í meira en ár. Í heildina tóku 363 knapar þátt í boðreiðinni, sem gerir sjö manns að meðaltali í hverjum áfanga. Stundum voru þeir færri og stundum miklu fleiri, en á öllum reiðleiðunum var stemmningin „frábær“, eins og Marie lýsir henni.

Sjálf reið Marie í 33 daga og var samanlagt meira en 900 km á hestbaki. Ein af ástæðunum fyrir boðreiðinni var einmitt að fá að ríða lengur en í hestaferðunum sem hún hafði farið í á Íslandi. „Hestaferðir eru aldrei nógu langar ef þú spyrð mig!“ segir hún. Það eru einnig fleiri sem vilja endurtaka reiðina og margir voru leiðir yfir því að hafa misst af henni. Þess vegna er nú verið að skipuleggja Sverigeritten aftur fyrir árið 2022 og takmarkið er að hafa slíka boðreið á tveggja ára fresti. „En á næsta ári ætla ég að sofa!“ segir Marie og hlær.

Stærsta ástæða Sverigeritten var að virkja og tengja frístundareiðmenn um alla Svíþjóð. Þeir sem ekki gátu tekið þátt í boðreiðinni gátu tekið þátt í áskorun í staðinn. Sverigerittutmaningen var opin öllum félagsmönnum. Þá gat fólk skipulagt sína eigin reiðdaga og reiðleiðir og tekið þátt í að safna sama kílómetrafjölda sem reiðmennirnir í boðreiðinni lögðu að baki, eða 1748 km, sem samsvarar vegalengdinni frá Kiruna til Ystad. Fjöldi fólks tók þátt í áskoruninni, eða 105 manns frá 34 félögum. „Ég er að hugsa um að skipuleggja svipaða áskorum á næsta ári líka þannig að félögin safni 2021 km árið 2021,“ segir Marie.

Riði yfir brýrnar í Umeå. Mynd: Linn Johansson – @ewalinn.

Meðan á Sverigeritten stóð söfnuðu þátttakendur fé fyrir Min stora dag, styrktarsamtök fyrir langveik börn. Lokaupphæðin reyndist hærri en 40.000 sænskar krónur (639.000 kr.), meira en tvöföld sú upphæð sem lagt var upp með að safna. Þátttakendum var einnig boðið að taka þátt í ljósmyndasamkeppni og 200 myndir voru sendar inn! Sigurvegararnir verða verðlaunaðir á haustfundi SIF í nóvember, en þeir geta unnið vegleg verðlaun, m.a. ferð til Íslands í boði Horses of Iceland. (Skoðið myndirnar á Instagram undir #siftävling.)

Íslenski hesturinn fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun í Svíþjóð á þessum 55 dögum, en um boðreiðina var fjallað í 15 dagblöðum, 11 útvarpsþáttum og einum sjónvarpsþætti. Auk þess voru þátttakendur duglegir að birta ferðasögur og myndir á samfélagsmiðlum. Mynd af reiðmönnunum þar sem þeir riðu yfir brýrnar í Umeå vann meira að segja ljósmyndakeppni borgarinnar á Instagram í júlí!

Marie „datt af baki“. Mynd: Frida Lindström.

Sem betur fer urðu engin alvarleg óhöpp, aðeins nokkur fyndin atvik. „Ég datt af baki og þurfti auðvitað að kaupa köku og bjóða öllum í reiðinni næsta dag,“ uppljóstrar Marie. „Þar sem við gleymdum að taka mynd þegar það gerðist sviðsettum við atvikið eftir á!“ Hún segir frá öðru skondnu augnabliki. „Formaður eins félagsins fékk sér óvæntan sundsprett. Eftir reið dagsins fórum við að vatni til að leyfa hestunum að drekka og vaða. Hesturinn hans ákvað að velta sér í vatninu og knapinn varð gegnblautur!“

Nú þegar Marie hefur haft tíma til að hvíla sig og hugsa um ferðaupplifunina, hvað er minnistæðast? „Að hitta alla félagsmennina, ríða með þeim og spjalla við þá; sjá, heyra og finna lyktina af mögnuðum stöðum í Svíþjóð frá hestbaki; sjá nýlegt spor eftir skógarbjörn á sama stígnum og við riðum á og að finna elgshorn,“ telur hún upp. „Lokadagurinn í Ystad var stórkostlegur! Og að sýna öllum hvað hægt er að gera ef viljinn er fyrir hendi og allir vinna saman.“

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Marie Svensson, Eva Larsson, Linn Johansson (fyrstu fimm myndirnar hér fyrir neðan) og Frida Lindström.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: