Esme Higgs, sem sér um vinsælu hestaþættina „This Esme“ á YouTube, kom nýlega til Íslands til að læra um og ríða íslenskum hestum.

Esme Higgs er 18 ára hestaunnandi og „vloggari“ frá Bretlandi. Hún bjó til og sér um hestaþætti á YouTube sem hún kallar „This Esme“ og hafa reynst feykivinsælir. Síðasta sumar ferðaðist hún um Ísland til að upplifa íslenska náttúru og – að sjálfsögðu – til þess að kynnast íslenska hestinum. Hún heimsótti Hestaland, Lava Horses og hrossaræktarbúið Jaðar, fræddist um eiginleika íslenska hestsins, prufaði tölt og fór í tveggja tíma reiðtúr. Myndbandið „Icelandic Horse Adventure“ („Íslenskt hestaævintýri“) var birt á YouTube 6. september og hefur síðan þá fengið nærri 70.000 áhorf.

Við hjá Horses of Iceland spurðum Esme út í ferðina til Íslands og „This Esme“.

Þú birtir venjulega eitt myndband á viku á YouTube-stöðinni þinni. Hvernig byrjaði þetta allt saman?

Ég hafði átt hestinn minn, Casper, í eitt ár um það bil, og okkur gekk ekkert sérstaklega vel. Ég hafði tekið upp myndbönd á símanum mínum, eins konar dagbók til að fylgjast með framförum okkar, og þá sá ég hversu margt hafði breyst á einu ári. Ég hugsaði með mér að þetta gæti gagnast öðrum líka og birti fyrsta myndbandið á YouTube í tilraunaskyni. Það fékk bara nokkur áhorf. Síðan gerði ég kennslumyndband um hestabúnað, sem fékk 2000 áhorf, og ég varð alveg steinhissa. Eftir próflok það sumar tók ég upp eitt myndband á dag af því að mér fannst það svo skemmtilegt og þá ruku áhorfin upp í 100.000. Síðan þá hef ég birt eitt myndband á viku. Þetta er ástríða fyrir mér og hefur opnað fyrir mér alls konar möguleika. Viðbrögð áhorfenda koma mér stöðugt á óvart. Sumir hafa sagt mér að þeir hafa farið út í hestamennsku vegna mín.

Um hvað fjalla þættirnir þínir?

Mest um reiðmennsku og grundvallaratriði í umhirðu hesta. Mig langar að aðstoða byrjendur, aðallega ungt fólk sem er að læra að fara á bak og sjá um hesta, með því að sýna þeim hvernig venjulegur dagur er hjá mér og hestunum mínum, Mickey og Casper. Ég starfa einnig með hjálparsamtökum, eins og þegar ég fór til Vestur-Afríku til að vekja athygli á frábærri starfsemi Brooke Aminal Welfare Charity* sem hjálpa vinnudýrum, hestum, ösnum og múldýrum í þróunarlöndunum.

* Esme var nýlega útnefnd sérstakur sendiherra fyrir samtökin.

Þú hefur gert þætti í Ástralíu og Bandaríkjunum. Hvers vegna vildir þú koma til Íslands?

Ég hafði komið til Íslands einu sinni áður, árið 2014, þegar ég ferðaðist þangað með vinum mínum. Mér fannst landið mjög fallegt og langaði að fara aftur. Eftir skólalok síðasta sumar sagði ég: „Jæja, nú fer ég til Íslands!“ Í síðustu ferðinni fór ég ekki á hestbak og mig langaði rosalega til að ríða íslenskum hestum. Ég hafði heyrt svo mikið um þá.

Hvað stóð upp úr eftir ferðina síðasta sumar?

Ég hef aldrei reynt neitt eins og tölt áður. Það var ótrúlegt! Mér fannst það mjög skemmtilegt. Hestarnir eru svo fallegir, sætir og harðgerðir og allir voru afskaplega gestrisnir. Guðmar [í Hestalandi] sýndi okkur flugskeið í hræðilega blautu og hvössu veðri og með Lava Horses hjá Húsavík fór ég í reiðtúr með Toru og Hildu Helgu. Það var yndislegt – besta minning ársins! Við lögðum áherslu á að fjalla um Norðurland, sem fær minni athygli en Suðurland. Síðan heimsóttum við Agga og Kristu [í Jaðri] sem sýndu okkur tveggja daga gamalt folald. Je minn, hvað það var krúttlegt! Á Englandi sérðu kannski nokkra hesta saman á engi, en á Íslandi voru jafnvel 30 hesta hjarðir á túni.

Hvað fannst þér um töltið?

Það var mun mýkra en ég hafði ímyndað mér. Ég hélt að ég myndi hossast meira. Það er erfitt að lýsa því en tilfinningin var sú að það væri einhvers staðar á milli brokks og stökks. Þetta var mjög þægileg og náttúruleg gangtegund.

Getur þú sagt okkur meira frá ferðum þínum um Norðurland?

Ég fór í tveggja tíma reiðtúr og við riðum yfir hraun, sem ég hef aldrei gert áður, stukkum á svörtum söndum og allt í kring voru fjöll með snæviþakta tinda. Við sáum villt dýr, fugla og seli. Það er mun rólegra í þessum landshluta en mun meira um að vera í kringum helstu ákvörðunarstaðina á höfuðborgarsvæðinu.

Hver hafa viðbrögðin við þættinum frá Íslandi verið?

Hann hefur fengið 70.000 áhorf hingað til. Þetta er eitt af þessum myndböndum sem er alltaf hægt að horfa á og það fær stöðugt ný áhorf. Það sem mér finnst sérstaklega áhugavert er að fólk sem er ekki áskrifendur að stöðinni minni er að horfa á þáttinn. Það er að leita að efni um Ísland á netinu og finnur hann þannig. Við sjáum á athugasemdunum að fólki finnst þátturinn góður. Fimm hundruð athugasemdir hafa verið skrifaðar og 4000 hafa merkt við að þeim líki hann.

Hefðir þú áhuga á að koma aftur til Íslands og fara í lengri hestaferð einhvern tímann?

Já, það er markmiðið mitt: Að gista í nokkrar nætur og ríða í hópi með lausum hestum. Við sáum sex reiðmenn með kannski 20 hesta. Það var magnað!

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: David Higgs.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0

Share: