Tory Bilski ræðir bókina sína, Wild Horses of the Summer Sun („Villtir hestar undir sumarsól“), og hrifningu sína á íslenskum hestum í viðtali við Horses of Iceland.

Árið 1999 sat Tory Bilski á skrifstofunni sinni í Yale háskólanum í Connecticut í Bandaríkjunum, þar sem hún vinnur við að ritstýra vísindagreinum fyrir stjórnmálahagfræðinga, og lét hugann reika. Hún vafraði um vefinn og rakst óvænt á óskýra mynd af íslenskum hesti – og féll fyrir honum á stundinni!

Ég var algjörlega heltekin. Skotin, eins og smástelpa. Þetta var vöðvastæltur hestur með göfugt höfuðlag, samanrekinn skrokk og þykkan, svartan, vindblásinn makka. Ég vissi að þetta var graðfoli; hann leit út eins og töffari. Mér leið eins og ég hefði þekkt þennan hest einhvern tímann í fyrndinni. Hann tengdist einhverri óljósri minningu, það var eins og við hefðum verið á sama stað á saman tíma einhvern tímann áður (ég veit, ég veit…). Venjulega trúi ég ekki á fyrri líf fyrr en á þriðja vínglasi, en hér var ég, á miðjum degi að slóra í vinnunni, starandi á dökkan hest sem starði beint til baka á mig. Við tengdumst á ný. Það voru margar aldir síðan síðast. Þannig hófst draumurinn. Staðurinn: Ísland. Reiðskjótinn: Íslenski hesturinn.

(Úr Wild Horses of the Summer Sun, 2019, eftir Tory Bilski – þýðing eftir greinarhöfund).

Nokkrum árum seinna var Tory orðin þekkt sem „konan sem fer til Íslands til að fara á hestbak“ í heimabænum sínum. Í rúman áratug ferðaðist hún til Íslands á hverju ári með vinum sínum til þess að fara í reiðtúra í íslenskri sveit – hefð sem veitti henni frið frá daglegu amstri. Síðastliðið vor gaf hún út minningarbókina Wild Horses of the Summer Sun („Villtir hestar undir sumarsól“), hjartnæma og meinfyndna frásögn af árum sínum á Íslandi, hrifningu sinni á íslenskum hestum og landinu sem skapaði þetta einstaka hrossakyn.

Þegar þú sást fyrrnefnda mynd varst þú nýbyrjuð í hestamennsku aftur eftir 20-30 ár, á Thoroughbred-stórhestum, en þér fannst þú ekki fá nógu mikið út úr því? Hvers vegna?

„Ég fór í hesthús í nágrenni við mig þar sem ég gat fetað, brokkað og stokkið inni í reiðhöll, en mér fannst ekki eins og ég væri að ná neinum framförum og að það væri eitthvað sem vantaði.“

Síðan settist þú á bak íslenskum hesti í fyrsta skipti og fórst í þriggja tíma reiðtúr í Vermont. Hvernig var sú upplifun frábrugðin hinni?

„Mér leið vel í hnakkinum og eins og ég næði sambandi við hestinn. Hann hentaði mér. Ég uppgötvaði að mér þykir mjög gaman að fara í lengri reiðtúra—mig langaði ekki að ríða stanslaust í hringi. Það er gott að fara í reiðtíma en mig vantaði reynsluna af því að fara í reiðtúr. Þegar þú ert í reiðtúr lærir þú sjálfkrafa vegna þess að þú situr sama hestinn í svo langan tíma.“

Geturðu lýst fyrsta skiptinu sem þú reiðst út á Íslandi?

„Í fyrsta skipti sem ég kom til Íslands bókaði ég ferð frá hestabýli og það voru í raun bændur sem fóru með fólk í reiðtúra, en þeir kenndu manni ekki neitt. Mér fannst ekki eins og þeir væru að fylgjast með. Ég var eiginlega upp á sjálfa mig komin, sem hefur vissa kosti, en mér fannst eins og þetta væri gamli skólinn í reiðmennsku. Mín tilfinning er að Hólar sé nýi skólinn.“

„Nýi skólinn“ var einmitt það sem þú kynntist næst þegar þú komst til Íslands. Frá 2004 til 2015 var þér og nokkrum öðrum konum boðið að ríða út með Helgu Thoroddsen, hrossaræktenda og þáverandi kennara í hestafræðum við Háskólann á Hólum, frá Þingeyrum á Norðvesturlandi. Hvað var svona sérstakt við Hóla og reiðtúrana með Helgu?

„Hólar er eins og hesta-Mekka fyrir okkur Bandaríkjamönnum. Það er mjög erfitt fyrir fólk að komast inn í Hóla og skólinn hefur orðspor fyrir að bjóða upp á úrvals þjálfunarkennslu vegna þess að hún er byggð á vísindum. Á Þingeyrum gátum við tekið reiðtíma í lok dags og oft voru þar nemar frá Hólum sumarlangt sem aðstoðuðu okkur í reiðtúrunum vegna þess að það var góð þjálfun fyrir þá líka.“

Hver er munurinn á því að ríða íslenskum hestum í Bandaríkjunum og á Íslandi?

„Þar sem ég bý í norðausturhluta Bandaríkjanna er mikið af þéttum skógum með stórum trjám. Þegar ég ríð eftir skógarstíg getum hvorki ég né hesturinn séð hvað er handan við hornið og ég hef það alltaf á tilfinningunni að eitthvað gæti stokkið á mig. Skógarbjörn sást á reiki nokkrum götum fyrir neðan húsið mitt í úthverfinu þar sem ég bý. Á Íslandi eru engin rándýr, sem veitir aukna frelsistilfinningu.“

Hvað er svona sérstakt við íslenska hestinn?

„Þú getur gengið upp að íslenskum hesti úti á túni og hann er vingjarnlegur og forvitinn. Þegar þú leggur á inni í hesthúsi er hann rólegur allan tímann. Þú þarf ekki að festa hann til þess að hann standi kyrr. Síðan sestu á bak og um leið og þú leggur af stað verður hann eftirtektarsamur og orkumikill og viljugur. Það er eins og hann sé að segja: „Allt í lagi, góða. Nú fer ég með þig í reiðtúr. Ég ræð við þetta. Gefðu mér bara lausan tauminn.“ Þetta tengist því hvernig þeir eru aldir upp, hálf-villtir. Þeim er sleppt í afrétt í marga mánuði í einu þar sem þeir þurfa að bjarga sér sjálfir. Þeir eru ekki dekraðir eins og gæludýr. Það breytir einhverju í heilanum á þeim: Það gerir þá skynugri, vegna þess að þeim er leyft að vera hestar.“

Getur hver sem er riðið íslenskum hesti?

„Íslenskir hestar hafa mjög viljugt geðslag. Allar þessar gangtegundir auðveldar manni að ríða þeim frá A til B á öruggan hátt. Síðan uppgötvar þú að það er líka flókið að hafa svona margar gangtegundir og að það sé hægt að læra svo margt að ég mun aldrei læra það allt á mínum líftíma. En það er allt í lagi vegna þess að ég get fengið heilmikið út úr þessu án þess að vera sprenglærð hestakona.“

Þú talar um þig og vinkonur þínar sem „frelsaðar“ (e. „converts“). Geturðu útskýrt það?

„Við eigum allar okkar sögu um að hafa riðið stórum hestum og að hafa átt erfitt með það vegna þess að við fórum allar aftur í hestamennsku á miðjum aldri – ein okkar ekki fyrr en hún var 59 ára! Hver og ein uppgötvaði íslenska hesta á sinn hátt og ákvað að taka þá fram yfir önnur hrossakyn. Ég hef áður riðið Thoroughbred-hestum, stórum, stæltum hestum, en þegar ég fór að ríða íslenskum hestum kom ekkert annað til greina – ég var frelsuð! Núna er ég hreinlega óörugg á öðrum hestum.“

Þú skrifar að stökk sé uppáhalds gangtegundin þín. Hvers vegna?

„Mjúkt tölt er yndislegt, en þegar ég var ung hestastelpa dreymdi mig um að stökkva á engi – síðan varð úr að ég fór um á stökki í þúfunum á Íslandi! Mér finnst eins og stökkið sé mjög mjúkt og ég missi sjaldan jafnvægið. Ég myndi missa jafnvægið á stórum hesti svo mig langaði eiginlega ekkert að stökkva á þeim. Þegar ég reyndi skeið á íslenskum hesti var það ekki viljandi. Ég vissi ekki hvað var að gerast. Það er ekki eins og nein önnur gangtegund. Mér leið eins og ég flygi.“

Hvernig veitir það þér sálarfró að ríða íslenskum hestum?

„Þegar þú ert í reiðtúr ertu með hugann algjörlega við augnablikið: Stíginn fyrir framan þig, gangtegund reiðskjótans, hvernig þú situr í hnakkinum. En þú ert ekki beint að hugsa um sjálfa þig heldur ertu algjörlega upptekin af reiðinni. Þegar þú ert upptekin af augnablikinu á þennan hátt kemur yfir þig tilfinning friðar og sáttar. Þú tapar sjálfri þér í augnablikinu – á góðan hátt. Öðrum líður svona þegar þeir eru á brimbretti eða á skíðum í fjöllunum. Mér finnst útiveran líka góð. Ég heyri fuglasöng og hundgá og þessi samhljómur náttúruhljóða á Norðurlandi kallar til mín. Það er frumstæð fegurð í þessari víðáttu og á sumrin er birtan stórfengleg.“

Hvað hafa reiðtúrarnir á Íslandi gefið þér?

„Það er einfaldlega stórkostlegt að vera með hestinum í náttúrulegu umhverfi hans og innan um hesta. Það veitir mér frelsistilfinningu – það er orðið sem kemst næst því að útskýra hvað ég og vinkonur mínar upplifðum. Og í þessum hópi hafa myndast sterk vináttubönd sem munu vara lengi eftir að við snúum aftur heim.“

Wild Horses of the Summer Sun – A Memoir of Iceland eftir Tory Bilski var gefin út af Pegasus Books (New York), af Murdoch Books í Bretlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi í maí 2019. Þýddar útgáfur verða einnig gefnar út í Þýskalandi og Hollandi. Hægt er að kaupa bókina á Amazon, Barnes & Nobles, Waterstones, Foyles, Pennanum Eymundssyni og í fleiri bókaverslunum.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Úr safni Tory Bilski.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: