Stóðhesturinn Otur frá Sauðárkróki er fallinn frá, 36 vetra að aldri. Hann er meðal helstu ættfeðra íslenska hestsins.
Stóðhesturinn Otur frá Sauðárkróki er fallinn frá, 36 vetra að aldri. Hann fæddist í Skagafirði sumarið 1982, en varði ævikvöldinu á býlinu Pfaffenbuck í Þýskalandi, þar sem hann lést undir lok síðasta árs. Otur er meðal helstu ættfeðra íslenska hestsins, en hann hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 1994 og sjálfur hlaut hann 8,37 í aðaleinkunn, 8,05 fyrir sköpulag og 8,69 fyrir hæfileika þegar hann var sýndur á Landsmóti á Vindheimamelum árið 1990. 
 
Erfðahlutdeild Oturs í íslenska hrossastofninum er fyrst og fremst í gegnum son hans Orra frá Þúfu, útskýrir Þorvaldur Kristjánsson, ábyrgðarmaður í hrossarækt hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins. Þorvaldur segir Orra vera helsta ættfaðir stofnsins á Íslandi í dag á eftir Hrafni frá Holtsmúla. „Áhrif Oturs eru töluvert minni í gegnum önnur afkvæmi en þar má helst nefna Rökkva frá Hárlaugsstöðum sem á syni sem hafa verið notaðir á síðastliðnum árum og svo Orku frá Hvammi sem er móðir stóðhestanna Óms og Ólivers frá Kvistum,“ bætir hann við. „Þannig að erfðaáhrif Oturs til framtíðar verða væntanlega að uppistöðu til í gegnum Orra, en í gegnum hann og fleiri afkomendur munu erfðavísar Oturs varðveitast til framtíðar.“
 
 
Otur var undan Hrafnkötlu og Hervari frá Sauðárkróki úr ræktun Sveins Guðmundssonar heitins. Sonur hans, Guðmundur Sveinsson, skrifar á Facebook-síðu sinni að þótt Otur hafi reynst misjafnlega sem kynbótahestur, náði hann þeim einstaka árangri að þrír synir hans og tveir sonarsynir unnu B-flokk á Landsmóti. Þetta kemur fram á feykir.is.
 
Guðmundur lýsir Otri á eftirfarandi hátt: „Hann var strax áberandi sem folald, hreyfingamikill með djarfa framgöngu.“ Guðmundur hrósar tamningamönnum Oturs (sem eru því miður báðir látnir), Einari Öder Magnússyni, sem tamdi hann fjögurra vetra, og Eiríki Guðmundssyni, sem tók við tamningu Oturs veturinn á eftir. „Þessir tveir snillingar skildu þennan unga, geðríka og fjörmikla hest vel og sýndu honum virðingu og gáfu honum tíma,“ skrifar Guðmundur. 
 
Þeir Eiríkur og Einar hrifust mjög af stóðhestinum unga. Í grein um Otur eftir Valdimar Kristinsson, sem birtist í Morgunblaðinu árið 2000, segist Einar meira að segja hafa verið „ástfanginn“ af Otri. Lofaði Einar hestinn svo mjög að sumum þótti við hæfi að breyta millinafni hans úr Öder í Otur!
 
„Hann var alltaf þægur en mjög næmur og kvikur frá því fyrst var farið honum á bak. Viljinn var einnig kraumandi strax frá byrjun og ég vil skilgreina hann sem ósvikinn fjörhest,“ segir Einar í grein Valdimars. „Töltið var alla tíð mjög gott og öruggt, skeiðið opið og eðlislægt en á brokki gat hann verið háll sem áll … Otur var strax frá fyrstu stundu sem farið var á bak honum þessi mikli höfðingi, svipmikill, faxprúður og ólgandi í fjöri.“
 
Eiríkur tengdist Otri einnig sterkum böndum. Hann sýndi hestinn fimm vetra um vorið 1987 og síðar sama ár á fjórðungsmóti á Melgerðismelum. „Ég sá hann nokkrum sinnum hjá Eiríki og fannst hann sérstaklega góður á Melgerðismelum og svo tveimur árum síðar á Landsmótinu á Vindheimamelum 1990. Við Eiríkur áttum margar áhugaverðar samræður um þetta sameiginlega áhugamál okkar sem Otur var,“ segir Einar.
 
Guðmundur tók við hesti föður síns þegar hann var á sjötta vetri og þjálfaði hann sjálfur. „Þegar leið á veturinn var hesturinn orðinn ævintýralega skemmtilegur, einn albesti og eftirminnilegasti hestur sem ég hef haft undir höndum. Eftirminnilegastur er viljinn, þetta ólgandi fjör án alls ofríkis.“
 
Sveini þótti einnig vænt um hestinn, en í grein Valdimars er haft eftir honum að Otur hafi snert hann mest af öllum þeim hestum sem hann hafði riðið. „Ég hef aldrei fyrr né síðar fundið slíkt fjör með þessari dásamlegu eftirgjöf,“ lýsir Sveinn.
 
Otur var seldur úr landi árið 2000 og þótti mörgum það miður, m.a. greinahöfundi sjálfum, en Valdimar hafði hugsað sér að halda undir hestinn. Benti hann á að Otur gæti átt eftir að feðra annan eins hest og Orra frá Þúfu og að það væri synd ef hann fæddist utan Íslands. 
 
Það kom á daginn, en Teigur vom Kronshof er hæst dæmda afkvæmi Oturs (8,31 – 8,84 – 8,63). Af tíu hæst dæmdu afkvæmum hans er þrjú fædd erlendis, en ættboginn á Íslandi er einnig stór. Alls eru 1023 afkvæmi skráð undan Otri. Eiginleikar hans lifa áfram í þeim, en hann þykir gefa góða háls- og skrokkmýkt, góðan burð og bakmýkt, sérstaklega góða hófa og afburða vilja, en undan honum hafa komið margir úrvals reiðhestar, eins og fram kemur á hestafrettir.is.
 
Valdimar lýsir honum á eftirfarandi hátt í grein sinni: „Otur hefur verið ímynd hins villta óbeislaða vilja íslenska hestsins, kraftsins og rýmisins. Mörgum þótti eiginlega nóg um orkuna í þessum kattmjúka öskuviljuga gammi.“
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Friðþjófur Þorkelsson og úr einkasafni.
 

Gallery

0 0 0

Share: