Stúfur er minnstur jólasveinanna 13, en á sér stóra drauma. Með hjálp frá örlátum kaffihúsaeiganda og vingjarnlegum hesti varð hann óvænt hetjan í fjölskyldunni.

Það er ekki auðvelt að búa í þröngum helli með 12 plássfrekum bræðrum, örgum jólaketti, uppstökkri móður og liðleskju fyrir föður, sérstaklega ekki þegar maður er minnstur í fjölskyldunni og öllum finnst sjálfsagt að vaða yfir mann. Stúfur er bæði lítill og léttur, en hann bætir upp fyrir smæðina með miklu skapi og stórum draumum. Stúfi finnst gaman að æfa sig að syngja, dansa og gera töfrabrögð og dreymir um að standa á sviði fyrir framan ótal áhorfendur. Hann semur líka lög: lofsöngva um sjálfan sig. Bræður hans gera grín að honum og Stúfur kann því illa. Hann sannfærist þó stöðugt um eigið ágæti og er alltaf að reyna að flytja lögin sín fyrir Grýlu og Leppalúða, við lítinn fögnuð foreldra sinna.

Í eitt skipti, þegar líða tók að jólum og allur matur var uppurinn í hellinum, ákvað Stúfur að reyna að létta andrúmsloftið með því að troða upp. En Leppalúði lagðist bara enn dýpra ofan í fletið og breiddi upp fyrri haus og Grýla æpti: „Hættu þessu góli, Stúfur! Þú ert að æra mig með þessum hávaða!“ Stúfur hafði einu sinni fengið að kenna á bræði móður sinnar – en þá henti hún honum út úr hellinum með þeim afleiðingum að allar tennurnar í honum brotnuðu, nema ein – og ákvað því að hunskast út í vetrarkuldann í stað þess að eiga á hættu að missa síðustu tönnina sína. Giljagaur elti hann og sá aldrei þessu vant aumur á litla bróður sínum. „Þú veist að mamma hefur ekkert fengið að éta í marga daga. Þá verður hún svona viðskotaill,“ sagði hann hughreystandi. „Komdu, við skulum athuga hvort við getum ekki fundið eitthvað matarkyns.“ Grýla var nefnilega hætt að éta óþekk börn og var að reyna að feta réttu brautina sem grænkeri – eða „vegan“ – en það var frekar erfitt á þessum árstíma, þegar snjór lá yfir öllu og ekki sást í stingandi strá.

Giljagaur var stærstur bræðranna og fór létt með að klofa snjóinn, en Stúfur þurfti hins vegar að taka fjögur skref fyrir hvert skref sem Giljagaur tók og sóttist ferðin því seint. Að lokum var Stúfur orðinn lafmóður og gat ekki haldið í við bróður sinn. Hann studdi sig örþreyttur upp við girðingarstaur og horfði á eftir bróður sínum skunda úr augsýn. Allt í einu fann Stúfur eitthvað heitt og mjúkt nuddast upp við ullartreyjuna sína. Honum stökkbrá og datt kylliflatur í snjóskafl. Þá heyrði hann blíðlegt hnegg og sá að þetta var bara vingjarnlegur hestur sem vildi heilsa upp á hann.

Stúfur stóð upp, dustaði af sér snjóinn, strauk hestinum – og fékk góða hugmynd! „Heyrðu, vinur... ertu ekki til í að hjálpa mér aðeins?“ Stúfur hafði aldrei fyrr farið á hestbak, en var samt sannfærður um að hann væri góður reiðmaður. Þetta var rólyndishestur og stóð kyrr á meðan þessi litli, skrítni karl klifraði upp á stein og klöngraðist á bak. „Jæja,“ sagði Stúfur. „Fylgdu þessari slóð!“ Hesturinn stóð sem fastast. „Hvað segir maður... Hott, hott!“ Hann sló í rassinn á hestinum og þá tók hann viðbragð og rauk af stað – svo snögglega að Stúfur missti næstum því jafnvægið. Hann ríghélt í faxið og hló dátt þegar hann hossaðist upp og niður. Giljagaur varð steinhissa þegar þeir stukku framúr honum á fleygiferð.

Hesturinn stefndi í áttina að upplýstu húsi og staðnæmdist fyrir utan; þetta var Kaffi Borgir. Stæk lykt barst þaðan svo Stúfur tók fyrir nefið. Hann renndi sér af baki og faðmaði hestinn að sér í þakklætisskyni. Þá Giljagaur kom askvaðandi, skrítinn á svipinn. „Hvar náðir þú í hest?“ Hann beið ekki eftir svari heldur hnusaði út í loftið. „Og hvaða lykt er þetta eiginlega?“ Þeir gægðust inn um gluggana og sáu kokka sjóða eitthvað sem minnti á fisk í risastórum potti. „Þetta er skata!“ ályktaði Giljagaur, en í dag var Þorláksmessa og skötuhlaðborð í Kaffi Borgum. „Hún bragðast mun betur en hún lyktar. Við skulum hafa nokkra bita með okkur heim í Grýluhelli.“ Í öðrum minni potti voru kartöflur og í þeim þriðja rófur, en það sem vakti athygli Stúfs var fiskur í raspi sem var verið að steikja í smjöri á pönnu. Agnir sem brunnu fastar við barmana á pönnum voru uppáhaldið hans! Allt í einu heyrðust hlátrasköll úr salnum. Matreiðslumennirnir urðu forvitnir og stukku í dyragættina til að heyra brandarann. Nú var lag! Bræðurnir laumuðust inn í eldhús. Giljagaur greip stóran dall og fiskispaða og bað Stúf um að veiða nokkra skötubita upp úr pottinum. En Stúfur stóðst ekki mátið. Hann notaði spaðann til að skafa raspið og kryddið sem hafði brunnið fast í pönnunni og sleikti hann svo. „Fljótur Stúfur!“ kallaði Giljagaur æstur, en sleppti síðan dallinum í skyndi og hljóp út úr eldhúsinu, því nú hafði hláturinn í salnum þagnað. Stúfur var enn að smjatta á skófunum þegar starfsfólkið snéri aftur inn í eldhús og greip hann glóðvolgan. „Hvað gengur hér á?“ spurði yfirkokkurinn strangur á svip. „Ehhmm...“ Nú þurfti hann að vera snöggur að hugsa. „Ég er með skemmtiatriði!“ Kokkurinn horfði tortrygginn á hann. „Nú, hvað ertu þá að gera í eldhúsinu? Farðu inn í matsal!“

Stúfur staulaðist inn horfði hugfanginn á fólkið, sem sat við borðin eftirvæntingarfullt á svip. Hann ræskti sig: „Hér kemur óvænt skemmtiatriði! Ég heiti Stúfur og ætla að syngja fyrir ykkur, frumsamið lag um sjálfan mig.“ Fólk leit hissa hvert á þegar Stúfur stökk upp á borð og hóf upp raust sína: „Það kann að vera að ég sé lítill eins og löður og léttur eins og tveggja vikna músarindilsfjöður, en ég get verið bæði stór og hryssingslega hrjúfur!“ Hann söng hátt og snjallt með miklum handahreyfingum og fólkinu fannst þessi litli karl svo furðulega skemmtilegur að það skelltu upp úr. Að lokum stóðu allir á fætur, klöppuðu og dönsuðu með og Stúfur réði sér varla fyrir kæti. Þegar lagið var búið hneigði hann sig djúpt.

Kaffihúsaeigandinn tók í hendina á Stúfi og þakkaði honum kærlega fyrir stórgott skemmtiatriði. Í því báru þjónar kúfuð föt af skötu, steiktum fiski, kartöflum, rófum og bráðinni hamsatólg á borð. „Má ekki bjóða þér að snæða með okkur?“ spurði hann. „Tja... Það er ósköp fallega boðið, en ef ég mætti fara með eitthvað af þessum dýrindis mat heim í Grýluhelli í staðinn, væri það enn betra,“ sagði Stúfur. Eigandinn tók vel í það og sagði nóg vera til af fiski. „Fæ ég líka svolítið af kartöflum og rófum fyrir Grýlu?“ bætti Stúfur við. „Hún er sko vegan.“ Kaffihúsaeigandinn hló og tók vel í það. Hann bað þjónana um að fylla dallinn sem Giljagaur hafði skilið eftir af gólfinu og færa Stúfi. Stúfur þakkaði kærlega fyrir sig. En hvernig átti hann að koma dallinum heim í Dimmuborgir fyrst Giljagaur var farinn?

Þá heyrðist hneggjað fyrir utan og kaffihúsaeigandinn klóraði sér hissa í kollinum. „Hvað er hann Léttfeti minn að gera hér?“ Stúfur útskýrði málið. „Þessi hjálpsami hestur kom mér til bjargar þegar ég var að örmagnast í fannferginu áðan. Ég er svo klofstuttur, nefnilega.“ Velunnari Stúfs brosti. „Hann Léttfeti er sannarlega góður hestur. Færðu honum brauðbita og athugaðu hvort hann vilji ekki bera þig og dallinn heim í hellinn aftur.“ Kaffihúsaeigandinn fylgdi Stúfi út, klappaði Léttfeta og gaf honum brauð, síðan hjálpaði hann Stúfi á bak og setti dallinn fyrir framan hann. „Gengur þetta?“ Stúfur hélt nú það – enda vanur reiðmaður!

Stæk skötulyktin boðaði komu Stúfs löngu áður en hann birtist. Þegar hann reið í hlað stóð öll fjölskyldan í hellisopinu til að sjá hver væri þar á ferð, Grýla fremst í flokki með stóran lurg í hendinni – svona til öryggis. Hún missti andlitið þegar hún sá minnsta son sinn á hestbaki með matardall fyrir framan sig. „Eruð þið ekki svöng?“ spurði Stúfur og glotti við tönn. „Gjörið þið svo vel: Heimsending frá Kaffi Borgum!“

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Marcin Kozaczek / visitmyvatn.is.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: