Landssamband hestamannafélaga (LH) og Horses of Iceland (HOI) vilja hvetja alla hestamenn til að skrá sig í hestamannafélög og hjálpa til við að bæta ímynd samfélags íslenska hestsins.

Landssamband hestamannafélaga (LH) og Horses of Iceland (HOI) hafa efnt til átaks meðal hestamannafélaga sem standa mun í sex vikur frá og með 6. apríl.

Forsvarsmenn stórra og smárra hestamannafélaga um land allt eru hvattir til að segja frá starfi sínu með stuttum, jákvæðum skilaboðum og fallegum myndum og jafnvel myndböndum og birta á Facebook-síðu síns félags einu sinni í viku í sex vikur.

„Hugmyndin um svona átak kviknaði þegar ég var á mínum fyrsta FEIF fundi árið 2016 en í samtölum mínum við formenn annarra landa komst að því hversu erfitt það hefur reynst þeim að fá fólk til að skrá sig í hestamannafélögin og þá sérstaklega hobbý-reiðmenn sem ekki eru að keppa. Það er eins hér heima,“ segir Jelena Ohm, verkefnastjóri HOI.

Til þess að samhæfa átakið fá hestamannafélögin sömu sex myndirnar til notkunar, auk stórrar myndar til að setja inn á forsíðu félagsins á Facebook sem „cover photo“.

Markmið átaksins er tvíþætt: Að fjölga skráningum í hestamannafélög og að bæta ímynd samfélags íslenska hestsins.

„Verið er að höfða til þeirra hestamanna sem stunda hestamennsku á félagssvæðum hestamannafélaganna og greiða ekki félagsgjöld með því að leggja áherslu á að það sé áhugavert að tilheyra „samfélagi íslenska hestsins“ og leggja sitt af mörkum til þess,“ útskýrir Hjörný Snorradóttir, verkefnastjóri LH.

Um allt land sjá hestamannafélögin m.a um viðhald reiðstíga, snjómokstur, rekstur reiðhalla, halda mót og skipuleggja auk þess fjölbreytta og skemmtilega viðburði fyrir hestafólk á öllum aldri.

„Það er mikilvægt að vekja athygli á virðiskeðjunni, allir sem ríða út njóta góðs af reiðvegum og viðhaldi þeirra. Félagsgjaldið er nauðsynlegt fyrir hvert félag sem einnig greiðir gjald til LH, sem aftur greiðir til FEIF, alþjóðlegu samtaka íslenska hestsins,“ bendir Jelena á og segir að endingu: „Það er ekki síst mikilvægt fyrir okkur að hafa rauntölur um þá sem stunda hestamennsku sem eru líklega fleiri en við höfum gögn um í dag. Hestamenn verða að standa saman!“

Öll félög innan LH hafa fengið sendan upplýsingapakka um átakið.

Hægt er að skrá sig í hestamannafélög á vefsíðu LH: lhhestar.is.

Einnig má hafa samband við Hjörnýju (hjorny@lhhestar.is) og Jelenu (jelena@islandsstofa.is).

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson.

Deila: