Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, tók þátt í ráðstefnunni World Horse Culture Forum í Hohhot, Kína, í lok nóvember, og þátttakendur sýndu íslenska hestinum mikinn áhuga.

Horses of Iceland lagði land undir fót í lok nóvember, en Jelenu Ohm, verkefnastjóra Horses of Iceland, var boðið að taka þátt í ráðstefnu í Hohhot í Innri Mongólíu, Norður-Kína, 28. nóvember til 1. desember. Á ráðstefnunni, sem heitir World Horse Culture Forum, komu saman fulltrúar hrossakynja frá 30 löndum til að ræða hestamennsku. „Það var mikill heiður að íslenski hesturinn hafi fengið að vera hluti af þessari ráðstefnu,“ segir Jelena. Hún bætir við að hestamennska, sérstaklega frístundareið, sé í miklum vexti í Kína og að á sama tíma komi kínverskir ferðamenn í auknu mæli til Íslands, þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu. „Það var 16% aukning í fjölda ferðamanna frá Kína miðað við árið í fyrra,“ bendir Jelena á. Í Kína felast því spennandi tækifæri fyrir íslenska hestinn.

„Ráðstefnan var fyrst og fremst vettvangur fyrir fólk til að tala saman og mynda tengsl. Þetta var í fyrsta skipti sem fulltrúi frá Íslandi tók þátt og það var enginn fulltrúi frá Skandinavíu,“ segir Jelena. Á ráðstefnunni voru fjögur „forum“ eða umræðuvettvangar og Jelena tók þátt í umræðum sem höfðu yfirskriftina „The integration of horse culture related tourism“, um hestamenningu og ferðaþjónustu. „Fólk var mjög áhugasamt. Ég var með um 150 eintök af bæklingnum okkar á kínversku og þeir bara hurfu.“

Almennt vakti ráðstefnan mikla athygli í Kína, en fjallað var um hana í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins CCTV. Á ráðstefnunni voru um 200 blaðamenn og viðtöl voru tekin við alla þátttakendur. Myndbönd frá ráðstefnunni voru sýnd á risaskjáum víða um borgina. Kínverski herinn kom fram á opnunarhátíðinni og sérstakt lag, sem hafði verið samið fyrir þetta tilefni, var flutt.



Jelene Ohm með Jia Youling.

Jia Youling, forseti Chinese Horse Industry Association (CHIA), kínversku hestasamtakanna, tók þátt í ráðstefnunni og fékk Jelena tækifæri til að spjalla við hann á einkafundi. Jia Youling starfar í landbúnaðarráðuneyti Kína, sem gefur til kynna hversu mikilvægur málaflokkur hesturinn er Kínverjum. CHIA hefur t.d. lagt til að hestafræði verði kennd í grunnskólum. „Ég leyfði honum að prufa sýndarveruleikagleraugun okkar og hann horfði á íslenska hestinn í norðurljósareið og Laufskálaréttir. Hann var mjög hrifinn og vildi kaupa gleraugun, en ég gaf honum þau.“ Hann færði Jelenu hestastyttu að gjöf.

Hohhot er vagga hestamennskunnar, en það var á þessu svæði sem Genghis Khan reið af stað með her sínum til að leggja undir sig heiminn á 13. öld. „Mongólar höfðu yfirburði vegna þess að þeir voru fyrstir til að nota ístöð,“ útskýrir Jelena, en hún skoði einmitt hnakka- og ístaðasafn í borginni. Kínverjar vilja tilnefna Hohhot sem heimshöfuðborg hestamennskunnar, eða „Horse City of the World“.

Jelena var mjög ánægð með ráðstefnuna og þakklát fyrir tækifærið sem hún fékk til að kynnast kínverskri hestamenningu og til að mynda tengsl við fulltrúa hrossakynja víðsvegar um heiminn. „Ég komst líka að því hvað við í íslenska hestaheiminum erum komin langt með dómara-, menntunar- og ræktunarkerfið okkar. Ég fylltist stolti.“ Henni fannst einnig athyglisvert að í öllum þeim löndum sem áttu fulltrúa á ráðstefnunni er hestaiðnaðurinn ríkisstyrktur að einhverju leyti, meira að segja í löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi þar sem hestaíþróttir, t.d. kappreiðar, velta milljörðum.

Eftir ráðstefnuna fékk Horses of Iceland senda yfirlýsingu frá fulltrúum CHIA í Kína um að sendinefnd hafi áhuga á að koma til Íslands og kynnast íslenskri hestamennsku nánar. Horses of Iceland hefur einnig látið kanna möguleg markaðstækifæri í Kína með markaðsgreiningu. „Það verður spennandi að sjá hvort það séu framtíðartækifæri fyrir íslenska hestinn í Kína,“ segir Jelena að lokum. Stefnt er að því að halda World Horse Culture Forum annað hvert ár.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Jelena Ohm og World Horse Culture Forum.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0

Deila: