Í miðbæ Reykjavíkur bauðst fólki að horfa á myndbönd með íslenska hestinum í sýndarveruleikagleraugum og fylgjast með spennandi hestasýningum.
Mikið var um dýrðir um allt land í gær, 17. júní, þegar landsmenn héldu upp á í 75. ára afmæli íslenska lýðveldisins í blíðskaparveðri. Víða voru atriði tengd íslenska hestinum á dagskrá, t.d. var teymt undir börnum í Hamraborg í Kópavogi.
 
Í Ráðhúsi Reykjavíkur var gestum og gangandi boðið upp á að horfa á stutt myndbönd í sýndarveruleikagleraugum, þar sem íslenski hesturinn var í aðalhlutverki, m.a. frá stærstu stóðréttum landsins, Laufskálaréttum. Einnig var hægt að skoða bæklinga, póstkort, o.fl., um íslenska hestinn.
 
Á Ísbjarnarflöt við Tjörnina voru ýmiskonar hestakúnstir sýndar, m.a. léku hestar sér að stórum boltum og tóku þátt í snú-snú. Kynnir lýsti því sem fram fór og fræddi áhorfendur um eiginleika íslenska hestsins.
 
Á sama stað sýndu knapar frá Landssambandi Hestamannafélaga (LH) gangtegundir íslenska hestsins. Margir fylgdust með er hestar og menn sýndu glæsta takta og hlýddu á kynni segja frá því sem fyrir augu bar. Krakkar kættust yfir því að fá að klappa hrossunum.
 
Dagskrána í Reykjavík skipulagði Horses of Iceland í samvinnu við LH.
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Louisa Hackl.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: