Kosið var um áframhaldandi samstarf Landssambands hestamannafélaga (LH) við Horses of Iceland (HOI) verkefnið á 62. landsþingi sambandsins sem fór fram með rafrænum hætti helgina 27.–28. nóvember.

Kosið var um áframhaldandi samstarf Landssambands hestamannafélaga (LH) við Horses of Iceland (HOI) verkefnið á 62. landsþingi sambandsins sem fór fram með rafrænum hætti helgina 27.–28. nóvember.

Stuðningur LH skiptir HOI gríðarlegu miklu máli, enda er sambandið meðal stærstu samstarfsaðila verkefnisins og sitja tveir fulltrúar LH í verkefnastjórn. LH tekur þannig ekki aðeins þátt í að fjármagna markaðsstarf HOI, heldur einnig að móta áherslur þess. Verið er að semja um nýjan langtíma fjárfestingarsamning við Ríkisstjórn Íslands og er stuðningur LH meðal forsenda fyrir slíkum samningi.

Aðal áherslan í samstarfsverkefnum LH og HOI er að vekja athygli á og efla nýliðastarf hestamannafélaga en ljóst var á landsþingi að nýliðun í hestamennsku og útbreiðsla greinarinnar innanlands er það mál sem brennur hvað heitast á hestamönnum þessi misserin.

Á landsþingi LH var Guðni Halldórsson kjörinn nýr formaður. Um samstarfið við HOI, segir Guðni: „Eitt helsta áherslumál mitt í aðdraganda landþings, og það mál sem ég tel hvað mikilvægast að verði tekið föstum tökum, er hvernig við getum fengið fleiri í hestana. Ný stjórn LH hefur ekki enn komið saman en ég tel ljóst af samtölum mínum við stjórnarmenn að þetta mál muni verða í forgrunni nýrrar stjórnar. Í því samhengi tel ég mikilvægt að sú gríðarlega þekking, efni og mannafli sem HOI hefur á að skipa, verði nýtt sem best og munum við án efa sækja stíft í það í þeirri vinnu sem framundan er í þessu mikilvæga og krefjandi verkefni.“

Jelena Ohm, verkefnastjóri HOI, bætir við: „Við erum gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn frá LH, allt frá upphafi. Það sem skiptir mestu máli er að vinna verkefnin í sameiningu, samræma skilaboðin og þannig fá aukinn slagkraft í markaðsstarfið. Samvinna er lykillinn að velgengni og það er augljóst að án LH væri þetta ekki hægt.“

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson.

Deila: