Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum 2021 hefst 28. janúar, en í ár verður deildin 20 ára! Öll mótin verða sýnd í beinni opinni útsendingu á RÚV2. Auk þess verður hægt að kaupa aðgang að beinu streymi og ýmis konar aukaefni á Alendis TV.

Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum 2021 hefst 28. janúar, en í ár verður deildin 20 ára! Öll mótin verða sýnd í beinni opinni útsendingu á RÚV2. Einnig hafa Alendis TV og Meistaradeild Líflands gert með sér samstarfssamning sem felst í því að öll mót Meistaradeildarinnar verða aðgengileg á streymisveitu Alendis TV. Einnig verður boðið upp á ýmis konar aukaefni tengt hestaíþróttum.

Meistarastofan eru átta 20-mínútna þættir sem Alendis TV framleiðir fyrir Meistaradeild Líflands. Hver þáttur er tileinkaður einu liði. Kári Steinsson tekur viðtöl við knapana um væntingar þeirra og undirbúning fyrir keppnina, og hestana sem þeir ætla að keppa á.

Hægt er að horfa á þættina endurgjaldslaust á alendis.tv og Facebook og Instagram-síðum Alendis TV. Viðtölin eru á íslensku og textuð á ensku. Fyrsta þátturinn fór í loftið í byrjun desember og nú hafa fimm verið birtir.

„Við förum í heimsókn til allra liða Meistaradeildar Líflands og ræðum við þau um hrossin þeirra og því sem þau stefna að,“ útskýrir Edda Hrund Hinriksdóttir, verkefnastjóri Alendis TV og framleiðandi þáttanna. Viðtökur hafa verið góðar og sérstaklega mikið um áhorf á Facebook, segir Edda, en áhorfstölur eru komnar í 55.000.

„Meistarastofuþættirnir eru hugsaðir sem markaðsefni fyrir Meistradeildi Líflands og þess vegna eru þeir fríir. Það er fullt af fólki sem fylgist með sem veit ekki hvernig knaparnir líta út ef þeir eru ekki á hestbaki með hjálminn á hausnum,“ bætir hún við. „Nú geta áhorfendur fengið að sjá þá og heyra í þeim spjalla um hvernig þeir þjálfa hrossin sín. Þetta verður aðeins persónulegra. Ég hef til dæmis heyrt fólk segja: „Ég vissi ekki að hann væri ekki með hár!““ Edda hlær. Hún bætir við að þættirnir eru stílaðir inn á fólk sem hefur mikinn áhuga á hestum.

Þegar mótin hefjast 28. janúar verður hitað upp með viðtölum við sérfræðinga og greinendur um ráslista og væntingar. Auk þess verður boðið upp á spekingahorn í hléi og eftir hvert mót verður farið yfir úrslitin.

„Við viljum færa kaffistofuumræðurnar yfir á á skjáinn, þannig að fólk geti kastað fram skoðunum og þess háttar, og búa til íþróttalegri umræðu í kringum Meistaradeildina eins og þekkjum frá fótboltanum og flestum öðrum íþróttum,“ útskýrir Edda. „Við höfum fengið gott fólk til liðs við okkur og Telma Tómasson verður þáttarstjórnandi,“ bætir hún við. Þetta verða beinar útsendingar og viðtölin verða á ensku.

Átta lið og 40 knapar munu keppa í átta mismunandi greinum í deildinni í vetur (hægt er að lesa meira um þau hér). Fjórgangur verður á dagskrá 28. janúar, slaktaumatölt 11. febrúar, fimmgangur 25. febrúar, gæðingafimi 11. mars, gæðingaskeið og 150-metra skeið 20. mars og tölt og 100-metra skeið 10. apríl, en þá verður einnig lokahátíðin haldin. 

RÚV2 sýnir beint frá keppni í öllum greinum. Alendis TV mun streyma útsendingum með lýsingum á íslensku og ensku og hægt verður að kaupa aðgang með dagspassa eða áskrift. Kaupendur fá þá aðgang að öllu efni Alendis TV, t.d. frá mótum síðasta árs.

„Við fórum fyrst í loftið síðasta vor í maí þegar við sýndum frá Hafnarfjarðarmeistaramótinu og í kjölfarið sýndum við frá öllum stórum mótum síðasta sumar. Þetta er í kringum 300 klukkutímar af efni,“ segir Edda. Útsendingar Alendis TV hafa reynst vinsælar bæði á Íslandi og erlendis.

Hægt er að kaupa myndbönd af ákveðnum knöpum og hestum til einkanota. „Keppendur geta skoðað sig aftur í tímann, hvað þeir gerðu vel hvað þeir geta bætt. Það hefur verið hellings sala á stökum vídeóum í vetur. Fólk sem vill selja getur keypt gott myndefni frá keppni þar sem hesturinn stóð vel og sýnt fram á að hann sé góð söluvara,“ útskýrir Edda. Notast er við fjarstýrðar myndavélar sem auðveldar umstang en kemur ekki niður á myndgæðum.

Það er margt framundan hjá Alendis TV. „Það er meira en nóg um að vera. Með Meistaradeild Líflands eru þetta sjö deildir sem við erum að sýna frá.“ Edda nefnir sem dæmi Meistaradeild æskunnar og Áhugamannadeildina. „Hún hefur verið mjög vinsæl síðustu ár og mikil stemmning í stúkunni. Þetta er í fyrsta skipti sem við sýnum frá svona mörgum af hinum deildunum og það verður spennandi að sjá áhorfin þar.“

Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, segir: „Alendis er frábært verkefni og dæmi um nýsköpum sem kom til bjargar á hárréttum tíma í COVID. Að senda út hágæða beinar útsendingar með þul á mismundandi tungumálum opnar margar dyr fyrir íslenska hestamennsku, úti um allan heim. Það verður spennandi að fylgjast með Meistaradeild Líflands í vetur og öllum skemmtilegu þáttunum sem Alendis og RÚV bjóða upp á. Það verður eitthvað fyrir alla!“

Horses of Iceland er markaðsverkefni sem hefur þann tilgang að byggja upp orðspor íslenska hestsins um allan heim til að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun og útbreiðslu hestsins á heimsvísu. Alendis er sérdeild um hestaíþróttir innan OZ, sem er íslenskt hátæknifyrirtæki á sviði þráðlausra viðskipta.

Hægt er að fylgjast með framvindu Meistaradeildar Líflands á nýrri vefsíðu, meistaradeild.is, og horfa á þætti og útsendingar Alendis á alendis.tv.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Louisa Hackl og Gunnar Freyr Gunnarsson.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: