Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum 2022 hefst fimmtudaginn 27. janúar á keppni í fjórgangi. Öll mót Meistaradeildarinnar verða aðgengileg á streymisveitu Alendis og einnig er þar að finna ýmis konar aukaefni tengt hestaíþróttum.

Á fyrsta mótinu þann 27. janúar verður keppt í fjórgangi og hefst mótið kl. 19:00 og er haldið í Ölfushöll. Ráslista fjórgangsins má finna hér. Tuttugu og fjórir fremstu knapar landsins etja kappi á vel þjálfuðum gæðingum sínum, ýmist þekktum hestum eða nýjum og spennandi efnivið.

Meistarastofan eða Champions Lounge eru átta 20-mínútna þættir sem Alendis framleiðir fyrir Meistaradeild Líflands. Hver þáttur er tileinkaður einu liði. Edda Hrund Hinriksdóttir tekur viðtöl við knapana og áhorfendur kynnast þeim, væntingum þeirra, markmiðum og hestakosti vetrarins. Hægt er að horfa á þættina á alendis.tv og Alendis smáforritinu. Viðtölin eru á íslensku og textuð á ensku og þýsku.

„Við fórum í heimsókn til allra liða Meistaradeildar Líflands og ræddum við knapa um hrossin þeirra og því sem þau stefna að,“ útskýrir Edda Hrund Hinriksdóttir, verkefnastjóri Alendis og framleiðandi þáttanna.

Fyrir hvert mót verður hitað upp með viðtölum við sérfræðinga og greinendur um ráslista og væntingar. Auk þess verður boðið upp á spekingahorn í hléi og eftir hvert mót verður farið yfir úrslitin.

„Við viljum færa kaffistofuumræðurnar yfir á skjáinn, þannig að fólk geti kastað fram skoðunum og þess háttar, og búa til fagmannlega umræðu í kringum Meistaradeildina eins og þekkjum úr fótboltanum og flestum öðrum íþróttagreinum,“ útskýrir Edda. „Við höfum fengið gott fólk til liðs við okkur og Telma Tómasson verður þáttastjórnandi,“ bætir hún við. Þetta verða beinar útsendingar og viðtölin verða á ensku.

Átta lið og 40 knapar munu keppa í átta mismunandi greinum í deildinni í vetur (hægt er að lesa meira um þau hér). Fjórgangur verður á dagskrá 27. janúar, slaktaumatölt 10. febrúar, fimmgangur 25. febrúar, gæðingafimi 18. mars, gæðingaskeið og 150-metra skeið 26. mars og tölt og 100-metra skeið 9. apríl, en þá verður einnig lokahátíðin haldin. 

RÚV2 sýnir beint frá keppni í öllum greinum. Alendis mun streyma útsendingum með lýsingum á íslensku, þýsku og ensku og hægt verður að kaupa aðgang með áskrift. Kaupendur fá þá aðgang að öllu efni Alendis , t.d. frá mótum síðasta árs.

„Við fórum fyrst í loftið síðasta vor í maí 2020 og höfum tekið upp og sýnt um 1500 klukkustundir af hestum”, segir Edda og bætir við: “Að auki höfum við framleitt ýmis konar efni sjálf, þar má nefna Meistarastofu og Heimsókn í hesthús, þar sem Ragnar Bragi Sveinsson fór á milli bæja og fékk að kynnast hestafólki á heimavelli og skoða aðstöður þeirra til tamninga og þjálfunar. Útsendingar Alendis hafa reynst vinsælar bæði á Íslandi og erlendis.

Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, segir: „Alendis er frábært verkefni og dæmi um nýsköpun sem kom til bjargar á hárréttum tíma í tímum COVID. Að senda út hágæða beinar útsendingar með þul á mismundandi tungumálum opnar margar dyr fyrir íslenska hestamennsku, úti um allan heim. Það verður spennandi að fylgjast með Meistaradeild Líflands í vetur og öllum skemmtilegu þáttunum sem Alendis býður upp á. Það verður eitthvað fyrir alla!“

Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir Myndir: Louisa Lilja

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: