Fyrsta mótið í Meistaradeild Líflands og æskunnar verður sunnudaginn 7. febrúar í TM-höllinni hjá Fáki í Víðidal. Keppni hefst klukkan 12:00. Hægt verður að taka á móti takmörkuðum fjölda áhorfenda í stúku. Einnig mun Alendis TV streyma beint frá keppninni.

Fyrsta mótið í Meistaradeild Líflands og æskunnar verður sunnudaginn 7. febrúar í TM-höllinni hjá Fáki í Víðidal. Keppni hefst klukkan 12:00. Hægt verður að taka á móti takmörkuðum fjölda áhorfenda í stúku. Einnig verður hægt að horfa á keppnina í beinu streymi á Alendis TV með lýsingum þular á staðnum.

„Við byrjum í raun í janúar með ýmis konar fræðslu og nytsamlegum fyrirlestrum,“ segir Hilda Karen Garðarsdóttir, stjórnarmeðlimur Meistaradeildar Líflands og æskunnar, en þetta er fimmta árið sem deildin fer fram. „Í ár fengum við Önnu Steinsen frá Kvan til að tala við keppendur um hvernig við náum árangri í íþróttum og í lífinu, svona sem andlegur undirbúningur.“

Í deildinni keppa 11 lið og í hverju þeirra eru fjórir knapar á aldrinum 13 til 18 ára. Keppni hefst með V1 fjórgangi í fyrsta mótinu 7. febrúar. Næstu mót fara síðan fram annan hvern sunnudag til 11. apríl. Auk fjórgangs er keppt í F1 fimmgangi, gæðingafimi, T1 tölti, T2 slaktaumatölti og PP1 gæðingaskeiði.

„Unglingar og ungmenni á þessum aldri eru sjaldan ein inni á vellinum í öðrum keppnum. Þetta krefst meira af þeim sem íþróttamönnum,“ segir Hilda og bætir við til útskýringar: „Það er algengara að hafa þrjá knapa saman í holli inni á vellinum í einu sem er auðveldara form keppninnar þar sem henni er stjórnað af þul og knapar þurfa því ekki að útfæra sýningarnar sjálfir eða passa upp á að gangskiptingar séu framkvæmdar á réttum stöðum. Nú fá knaparnir tækifæri til að stilla upp sinni eigin sýningu; það er svolítið fullorðins að gera þetta svona.“

Hilda segir að áður en Meistaradeild Líflands og æskunnar var stofnuð árið 2017 voru mjög fá mót haldin með þessum hætti fyrir þennan aldursflokk. Fyrir vikið voru ungir knapar oft með litla reynslu af því að stilla upp sinni eigin sýningu sjálfir þegar þeir fóru erlendis að keppa á alþjóðlegum mótum.

Meistaradeild Líflands og æskunnar hefur mælst mjög vel fyrir hjá ungum knöpum. „Þetta er nýtt tækifæri fyrir þeim. Margir bíða eftir því að verða 13 ára til að geta keppt í þessu fyrirkomulagi. Við sem stöndum að þessu í stjórninni sjáum miklar framfarir. Við fylgjumst með ungmennunum allt keppnistímabilið og sjáum þau eflast svakalega og sjálfstraustið aukast.“

Í fyrsta skipti í ár verður hægt að horfa á Meistaradeild Líflands og æskunnar heima í stofu í gegnum streymisveituna Alendis TV. „Það er líka dýrmætt fyrir krakkana að geta nýtt myndefnið til að horfa á sýningarnar sínar og fara yfir þær með þjálfurum og liðinu,“ bendir Hilda á. „Svo er gaman fyrir áhorfendur heima og erlendis að sjá hvað unglingar eru að gera í hestaíþróttum á Íslandi.“

Lesið meira um dagskrá Meistaradeildar æskunnar hér.

Hægt er að kaupa aðgang að streymi Alendis TV á heimasíðu streymisveitunnar.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Ólafur Ingi Ólafsson.

Myndasafn

0 0 0 0 0

Deila: