Magnús Benediktsson tók í byrjun mánaðarins við starfi framkvæmdastjóra Landsmóts hestamanna sem fram fer á Rangárbökkum við Hellu dagana 4. – 10. júlí 2022. Magnús hefur verið viðloðandi hestamennskuna lengi og meðal annars starfaði hann um árabil fyrir hestamannafélagið Sprett og var framkvæmdastjóri Fjórðungsmóts Vesturlands í sumar sem leið.

Magnús Benediktsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Verkefnin mörg og spennandi

„Þau eru nokkuð mörg verkefnin en góður grunnur hefur nú þegar verið lagður að mótinu, þar sem Eiríkur Vilhelm Sigurðarson var ráðinn framkvæmdastjóri mótsins á sínum tíma en mótið átti með réttu að fara fram í júlí 2020. Það þekkja allir þá sögu, heimsfaraldurinn setti stórt strik í reikninginn þegar kom að öllu viðburðahaldi það ár og því eina í stöðunni að fresta mótinu til sumarsins 2022. Staðan er því góð og Eiríkur mun starfa áfram í framkvæmdanefnd mótsins með mér ásamt Vilborgu Smáradóttur. Við erum vissulega að leggja áherslu á miðasöluna núna en hún hefst formlega þann 5. nóvember og við hvetjum alla til að tryggja sér besta mögulega miðaverðið í forsölu fyrir áramót á vefnum okkar www.landsmot.is og á www.tix.is. Þeir sem eiga nú þegar miða eru auðvitað bara í góðum málum og halda honum. Allar upplýsingar um tjaldsvæði og gistingu er að finna á vef mótsins. Önnur verkefni eru almennt skipulag mótsins, samningar og samskipti við samstarfsaðila, ýmis leyfi og undirbúningur veitinga- og sölusvæðis, dagskrárgerð og fleira og fleira.“

Nýjungar kynntar

„Við sjáum fyrir okkur mikla hátíð þar sem íslenski hesturinn verður í aðalhlutverki í keppni allra aldursflokka og einning í kynbótasýningunum og við vonumst til að fá 8000-10000 gesti alls staðar að úr heiminum til okkar. Það verða breytingar á dagskrá og ákveðið hefur verið að gera tilraun til að þróa mótið okkar og framboð keppnisgreina á Landsmótum í þá átt að keppa í íþróttakeppni í meira mæli. Eins og kunnugir vita þá hefur tíðkast að keppa í tölti T1 og í skeiði á mótunum hingað til en við teljum tímann vera kominn til þess að bæta fimmgangi, fjórgangi og slaktaumatölti við og þar verður farið eftir stöðulista við skráningu keppenda. Það er okkar trú að það sé komið að því að gera þessar viðbætur og breytingar. Til þess að þetta gangi upp í dagskrá, þarf að fækka hrossum annars staðar á mótinu og sú útfærsla verður nánar kynnt síðar,“ segir Magnús spenntur fyrir nýjungunum.

Manlífið

„Við vitum að maður er manns gaman og það á að vera gaman að vera gestur á svona viðburði og mannamóti eins og Landsmótin eru. Ég hef sennilega náð stærsta samningi mótsins, við veðurguðinn sjálfan um að veðrið verði eins og best verður á kosið. En í fullri alvöru að þá með því að leggja áherslu á mannlífið, skemmtun og fjölbreytta afþreyingu höfum við ráðið Jón Gunnar Geirdal í starf markaðsstjóra mótsins. Jón Gunnar hefur í áratugi unnið við að „plögga“ og markaðssetja allt mögulegt, enda starfað fyrir stærstu markaðsfyrirtæki landsins og ljóst að við hestamenn munum ekki koma að tómum kofanum hjá frasakonungi landsins.“

„Síðasta Landsmót var haldið 2018 í Reykjavík, svo næsta sumar verða fjögur ár frá síðasta móti og auk þess hafa hestamenn varla hist á stórmótum í 2 ár, svo við munum leggja okkur fram um að skemmta okkur og í grunninn er Landsmót auðvitað fjölskylduhátíð þar sem allir finna sér afþreyingu við hæfi,“ segir Magnús að lokum.

Smellið hér til að kaupa miða!

Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir  Myndir: Landsmót

Deila: