Í nýju myndbandi frá Horses of Iceland kynnumst við Mette Moe Mannseth, sem er norsk hestakona sem fluttist til Íslands fyrir 25 árum síðan og fór að vinna við tamningar og þjálfun. Þegar hún var lítil stúlka dreymdi hana alltaf um að eignast hest og það var hestur á öllum óskalistum hennar í æsku. En hver er Mette Moe Mannseth í grunninn?

„Upphaflega frá Noregi. Ég kynntist íslenska hestinum í Noregi og ég féll fyrir útgeislun hans og ótalmörgu hæfileikum, eins og persónuleika, geðslagi, kjarki, næmni, aðlögunarhæfni, fótvissi og ganghæfileikum. Ég vann fyrst við tamningar 1993 með námi, en flutti til Íslands má segja 1996.“

Í dag er Mette einn af fimm tamningameisturum og yfirreiðkennari við Háskólann á Hólum og hefur þannig mikil áhrif á nemendur sína og hestasamfélagið í heild sinni, en hún hefur starfað á Hólum í rúm 20 ár.  Hún býr á Þúfum í Skagafirði ásamt sambýlismanni sínum Gísla Gíslasyni, þar sem þau reka hrossaræktarbú og hafa náð frábærum árangri í ræktun sinni og hlotið viðurkenningar sem hrossaræktarbú árins og keppnishestabú ársins.

Mette segist vera algjör morgunhani og spennt fyrir hverjum nýjum degi. Í myndbandinu segir hún frá hugsjónum sínum í ræktun íslenska hestsins og hvar hún sér fyrir sér að vera eftir 10 ár.

Smellið hér til að kynnast einum fremsta reiðkennara og tamningameistara Íslandshestamennskunnar og fræðast um hennar aðferðir við tamningu og þjálfun hestsins.

Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir  Myndir: Skotta Film
Myndbandið var unnið af Skotta Film og leikstjórn var í höndum Þórdísar Önnu Gylfadóttur

Deila: