Knapamerkjabækurnar fimm hafa nú verið uppfærðar og endurútgefnar með öllum nýjustu upplýsingum um reiðmennsku og þjálfun hesta og knapa.

Í Knapamerkjabókunum fimm, sem komu fyrst út árið 2006, er líklega að finna viðamesta fræðsluefni sem gefið hefur verið út um meðferð og þjálfun íslenska hestsins. Bækur 1-3 voru uppfærðar og endurútgefnar fyrir nokkrum árum og bækur 4-5 í fyrra. Efni þeirra höfðar til allra hestamanna, bæði áhugamanna og atvinnumanna. Þær eru ætlaðar sem námsefni fyrir Knapamerkjanámskeið en einnig er hægt að nýta sér efni þeirra óháð námskeiðahaldi.

Höfundur Knapamerkjanna er Helga Thoroddsen reiðkennari. „Meginmarkmiðið hefur frá upphafi verið að mennta knapann og stuðla þannig að betri meðferð, tamningu og þjálfun íslenska hestins. Grunnurinn í Knapamerkjunum er fyrst og fremst velferð hestsins í gegn um það að mennta knapann auk þess að gæta öryggis beggja,“ útskýrir Helga. Við vinnslu bókanna kynnti Helga sér helstu stefnur og strauma hérlendis og erlendis, en þurfti að sníða efnið að íslenskum veruleika. „Við erum ekki með sömu reiðskólahefðir eins og t.d. í Evrópu þar sem margar reiðhefðir sköpuðust í gegnum hernað og hersýningar. Hins vegar höfum við mikla sögu af því að nota hestinn til vinnu og ferðalaga í náttúrunni, og mér fannst mikilvægt að halda í þá tengingu.“

Helga Thoroddsen, reiðkennari og höfundur Knapamerkjabókanna.

Fyrstu þrjár bækurnar byggja fyrst og fremst á að kenna knapa og hesti ákveðinn grunn, en í bókum 4 og 5, sem hvor um sig eru um 200 blaðsíður, er farið dýpra í þjálfunarhugtök og gangtegundaþjálfun auk þess sem þar er að finna ítarlega kafla um Sögu reiðmennskunnar. Í Knapamerki 3 er m.a. fjallað um mikilvægi stigskiptrar þjálfunar, þjálfunarstiginn er kynntur og ýmis hugtök útskýrð nánar, t.d. misstyrkur:

„Flestallir hestar fæðast missterkir frá náttúrunnar hendi og er þá átt við að þeir séu sterkari í annarri hliðinni en hinni – og svo er sjálfsagt um flest spendýr. Það segir sig sjálft að ef hesturinn býr yfir náttúrulegum misstyrk þá raskast jafnvægi hans enn frekar þegar þyngd mannsins á baki hestsins bætist við þennan misstyrk. Frá fæðingu beitir hesturinn annarri hliðinni meira en hinni og frá upphafi miðast öll þjálfun mannsins við að eyða þessum misstyrk og gera hestinn jafnvígan á báðar hliðar.“

Það er mikið af myndum, teikningum og skýringakössum með meginpunktum í bókunum, sem gerir efnið aðgengilegt og aðlaðandi, einnig fyrir unga námsmenn. Auk þess geta atvinnumenn fundið fræðsluefni sem gagnast þeim, sérstaklega í nýjum útgáfum síðustu tveggja bókanna.

Í bók 4 er t.d. stór kafli um knapann sjálfann, sjálfstraust, hugþjálfun, líkamsbeitingu, styrk og samhæfni. Þar er einnig fjallað um munn og bak hestsins, farið ítarlega yfir þjálfunarhugtök ásamt fimiæfingunum krossgangi og opnum sniðgangi:

„Þegar svo er komið að ríða má hestinum á baug og hann kann að víkja undan fæti er unnt að kenna honum æfingu sem kallast opinn sniðgangur en hún er af mörgum talin ein mikilvægasta æfingin við þjálfun hesta. Opinn sniðgangur er liðkandi æfing fyrir hestinn og eykur sveigjanleika hans auk þess að hafa safnandi áhrif. Sniðgangurinn mýkir hestinn, dregur úr misstyrk og stuðlar að því að gera hann samspora.

Helga tekur fram að námskeiðin krefjist tíma og þolinmæði en að uppskeran geti verið mikil ef nemandinn er tilbúinn til að leggja sig fram og njóta leiðarinnar að markmiðinu fremur en að hugsa einungis um að ljúka prófum á sem styðstum tíma. „Það opnast nýr heimur fyrir fólki sem er tilbúið að vinna markvisst og klára stigin eitt af öðru. Það sér hvað hestarnir breytast og hvað það eflist sjálft sem knapar og nær miklu valdi á því sem það er að gera.“

Helga bendir á að efnið hafi í raun verið endurskoðað tvisvar, í upphafi þegar Hólaskóli tók við verkefninu frá átaksverkefninu Átaki í hestamennsku og síðan aftur fyrir nokkrum árum þegar bækurnar voru endurútgefnar. „Núna hefur verið sett meira kjöt á beinin og efnið þróað áfram. Á þessum tíma hefur orðið gífurleg þróun í reiðmennsku og hestahaldi á Íslandi,“ segir Helga. „Það er búið að dýpka alla umfjöllunina og bæta við nokkrum nýjum köflum. Upplýsingum úr nýjum rannsóknum á íslenska hestinum hefur verið bætt við þar sem það var hægt. Tveir kaflar, einn á þriðja stigi og annar á fimmta stigi, eru eftir Guðrúnu Jóhönnu Stefánsdóttur [lektor Háskólans á Hólum] annars vegar um fóðurfræði og hins vegar um þjálfunarlífeðlisfræði, sem hún er sérfræðingur í.“ Hér má sjá brot úr Þjálfunarlífeðlisfræðikaflanum á 5 stigi:

„Rannsóknir hafa sýnt að fullorðnir íslenskir reiðhestar sem bera fullorðinn meðalþungan knapa eru oft með mjólkursýruþröskuld í kringum 5,5 m/s (ca. 20km/klst.) Mjólkursýruþröskuldurinn (t.d. hraði) er ekki fastur og hann getur færst til (hækkað) þegar hesturinn kemst í betra þjálfunarástand. Þegar líkamlega álagið fer yfir mjólkursýruþröskuldinn hækkar mjólkursýra hratt með veldisaukningu.“ Mikil mjólkursýra í vöðvum dregur úr afkastagetu vöðvanna, veldur þreytutilfinningu og stífni, og aukin áhætta er á ónákvæmni í hreyfingum og jafnvel meiðslum, t.d. ágripum.

Helga bætir við að nánast allt myndefni hafi verið uppfært í nýju útgáfunni. Mikil vinna liggur að baki uppfærslunum, en margt hefur bæst í reynslubankann frá því að Knapamerkin fóru fyrst af stað og námsefnið verið þróað samkvæmt því. Hún segir að nú þegar bækurnar hafa verið endurútgefnar með öllum nýjustu upplýsingum og aðferðum reiðmennskunnar muni þær vonandi standast tímans tönn. Svona efni verður ekki til út úr engu og þar koma margir að m.a., reiðkennarar, starfsmenn og nemendur Hólaskóla, ljósmyndarar, teiknarar, umbrotshönnuður o.s.frv.

Helga hefur einnig þýtt allar bækurnar yfir á ensku, en fimmta bókin er væntanleg undir lok þessa árs. „Það er búið að biðja um þetta í mörg ár og margir reiðkennarar hafa verið að ýta á eftir útgáfum bókanna á erlendum tungumálum,“ segir hún. „Ég veit um nokkra hópa erlendis sem eru á fyrstu stigum Knapamerkjanna og áhuginn er mikill enda sjaldan verið eins mikil eftirspurn eftir reiðkennslu á íslenska hestinum bæði hérlendis og erlendis.“

Hægt er að kaupa bækurnar á íslensku og ensku í öllum helstu hestavöruverslunum, hjá Hólaskóla (senda póst á heida@holar.is) og á vefsíðu Knapamerkjanna, www.knapamerki.is, er hægt að fylla út beiðni um kaup á bókum.

Lesið meira á knapamerki.is og á Facebook-síðu Knapamerkjanna.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Gígja Dögg Einarsdóttir.

Myndasafn

0 0 0 0 0

Deila: