Hrossaræktendur ætla að fagna útgáfu Stóðhestabókarinnar á Ræktunardegi Eiðfaxa 9. maí. Sýnt verður frá deginum í beinni útsendingu á vef Eiðfaxa. Fylgist með því sem gerist á bakvið tjöldin á samfélagsmiðlum Horses of Iceland.

Eiðfaxi blæs til mikillar veislu laugardaginn 9. maí og hestaáhugafólk um allan heim getur tekið þátt heima í stofu. Þá mun Ræktunardagur Eiðfaxa fara fram í Víðidal í Reykjavík með stóðhesta- og ræktunarbússýningum í beinni útsendingu á vefsíðu Eiðfaxa. Horses of Iceland verður að sjálfsögðu á staðnum og við munum fjalla um það sem gerist á bakvið tjöldin á samfélagsmiðlunum okkar.

Gísli Guðjónsson, ritstjóri Eiðfaxa, útskýrir að með Ræktunardeginum sé verið að fagna útgáfu Stóðhestabókar Eiðfaxa og sýna afrakstur af vetrarstarfi hrossaæktenda. „Nú verður Landsmótið ekki haldið og ýmsum öðrum viðburðum frestað sökum COVID-19. En við sáum fram á að geta haldið svona dag með nútímatækni. Við getum ekki boðið fólki að sitja í brekkunum, þótt kannski megi koma og skoða í bílunum. En svo verðum við með útsendingu beint af vef Eiðfaxa og vandað verður til verka.“

Gísli segir að fimm myndavélar verði notaðar til að taka sýningarnar upp til þess að útsendingin verði í hæstu mögulegu gæðum og geri gæðingunum góð skil. Lýsingar verða á íslensku, ensku og þýsku. Áhorfendur velja sér tungumál og greiða vægt gjald fyrir útsendinguna til að vega upp á móti kostnaði.

Sumir af stærstu aðilunum í íslenskri hrossarækt hafa boðað komu sína á Ræktunardaginn með stóðhesta-, afkvæma- og ræktunarbússýningum. „Við eigum von á flottum hestum og knöpum,“ segir Gísli og bætir við að nánari dagskrá verði auglýst á eidfaxi.is þegar nær dregur.

„Vonandi taka allir hestaáhugamenn vel í að það sé verið að reyna að gera eitthvað í núverandi ástandi. Þetta getur orðið stór gluggi fyrir íslenska hrossaræktendur til að koma sér á framfæri,“ segir Gísli. „Nú þegar er að koma sumar ættum við að gera eitthvað út fyrir kassann sem nýtist greininni okkar.“

Þeir hrossaræktendur sem hafa áhuga á að taka þátt og koma ræktun sinni á framfæri eru beðnir um að hafa samband við Eiðfaxa sem fyrst með tölvupósti: eidfaxi@eidfaxi.is.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Mynd: Gígja Einarsdóttir. Frá Landsmóti 2016.

Deila: