Alþjóðlegum degi íslenska hestsins var fagnað með lista- og ljósmyndakeppnum í ár. Fjöldi verka bárust í báðar keppnir og um helgina voru sigurvegararnir tilkynntir. Tólf listamenn voru verðlaunaðir í Berlín á föstudaginn og á laugardaginn lauk kosningu ljósmyndakeppninnar.

Alþjóðlegum degi íslenska hestsins var fagnað þann 12. september, en með heldur óvenjulegum hætti. Í stað þess að skipuleggja samkomur efndi Horses of Iceland (HOI) til ljósmyndasamkeppni sem lauk á laugardaginn. Alls bárust 684 myndir í keppnina.

Fólk gat síðan kosið sína uppáhaldsmynd – aðeins eina – og 9361 manns kusu í keppninni! Allar myndirnar sýndu sérstök augnablik með íslenska hestinum í fallegri náttúru.

Flest atkvæði, eða 1343, hlaut myndin „Soulmates“ („Sálufélagar“) eftir Svein Orra (@svenoreo). Í verðlaun fær hann Kalda Gore-Tex® Infinum® Windstopper® ullarjakka frá 66°Norður og ullarteppi með mynd af íslenskum hesti frá islensk.is. Innilega til hamingju!

„Soulmates“ („Sálufélagar“) eftir Svein Orra (@svenoreo). 

2. til 5. sæti.

HOI þakkar öllum fyrir þátttökuna. Hér er hægt að skoða fleiri myndir.

Í Þýskalandi var deginum fagnað með verðlaunaafhendingu og opnun listasýningar á innsendum verkum í listasamkeppni IPZV (þýsku Íslandshestasamtakanna). Athöfnin var haldin í Sendiráði Íslands í Berlín á föstudaginn, 11. september.

Sendiherra Íslands í Þýskalandi María Erla Marelsdóttir hélt opnunarræðuna og síðan töluðu Claudia Temmeyer og Christian Eckert frá IPZV. Tólf listamenn voru verðlaunaðir og næstum því allir gátu verið viðstaddir athöfnina.

Í barnaflokki (4.–1. sæti) hlutu Milan Löhrer, James Bradfield, Luis Eren Saltuk og Joris Baisch verðlaun. Joris, sem teiknaði íslenska hesta að leik í snjónum (önnur myndin hér fyrir neðan), fékk 3. aðalverðlaunin: Gjafabréf á Íslandshestabúgarðinn Wiesenhof að andvirði rúmlega 300 evra.

Í unglingaflokki (4.–1. sæti) hlutu Charlotta Borggräfe, Katrin Spreng, Lara Friese og Lisa Neumaier og Sina Brucker verðlaun. Lisa og Sina, sem máluðu íslenska hestinn á sínum heimaslóðum (önnur myndin hér fyrir neðan), fengu 2. aðalverðlaunin: Nótt á Hótel Rangá með 4. rétta kvöldverði og morgunmat og miða á Landsmót 2022.

Í fullorðinsflokki (4.–1. sæti) hlutu Julian Mertens og Valentin Evang, Nina Ekström, Bärbel Ricklefs-Bahr og Margrét Erla Júlíusdóttir verðlaun. Margrét, sem sendi inn málverkið „Í landi álfa og ævintýra“ (önnur myndin hér fyrir neðan) fékk 1. aðalverðlaunin: Gjafabréf með Icelandair í boði HOI að andvirði nærri 450 evra og átta daga hestaferð með Eldhestum.

Þessi 12 listaverk verða auk þess gefin út á dagatali IPZV fyrir 2021 og allir þátttakendur fá eintak. Hægt er að skoða innsend verk á vefsíðu IPZV. HOI óskar sigurvegurunum innilega til hamingju og þakkar öllum listamönnunum 465, sem sendu inn verk, fyrir þátttökuna.

Lesið meira um keppnina hér. Á Facebook-síðu HOI má einnig finna upplýsingar um aukaverðlaun og viðtöl við dómnefnd og skipuleggjendur.

Við þetta má bæta að víðsvegar um heiminn hélt fólk upp á Dag íslenska hestsins með því að fara í reiðtúra og verja tíma með fjórfættum félögum sínum. Myndir úr hópreiðum bárust m.a. frá Noregi, Belgíu og Nýja-Sjálandi!

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Sandra Kühnapfel (frá athöfninni í Berlín) og úrval innsendra verka.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: