Réttað var í Víðidalstungurétt 5. október. Fjöldi ferðamanna fylgdist með og fylgdu bændunum á baki.
Það er hávaðarok í Víðidal í Húnavatnssýslu þegar stóðið er rekið í réttina laugardaginn 5. október. Bændur og aðkomufólk fylgist með þegar lítill hópur hrossa er rekinn inn í hringlaga mannvirkið í einu og síðan inn í hólf hvers bæjar fyrir sig. „Þetta eru 350-400 hross,“ segir Steinbjörn Tryggvason réttarstjóri og bætir við að allt hafi gengið vel þrátt fyrir veðrið. „Mitt hlutverk er að sjá um velferð hrossanna, að allir séu með rétt hross og að allt gangi vel fyrir sig.“ Steinbjörn, sem býr á Hvammstanga, hefur verið réttarstjóri í Víðidalstungurétt í 20 ár. Hann býður einnig upp á hestaferðir, m.a. í tengslum við réttirnar, ásamt eiginkonu sinni. Litrík hrossin hlaupa hring eftir hring þar til eigendur hafa gengið úr skugga um að þau tilheyri þeim. „Yfirleitt þekkja bændurnir hrossin,“ segir Steinbjörn. Til öryggis eru þeir með skanna fyrir örmerki. „Þetta er aðallega ungviðið,“ segir hann um hrossin í réttinni, en fyrir utan trippin eru nokkrar folaldsmerar ásamt afkvæmum sínum í stóðinu. Hrossin eru rekin á afrétt í byrjun sumars og eru þar fram á haust. „Bændur eru að spara landið heima. Það er nóg af grasi á afréttinum,“ segir Steinbjörn um tilgang þessarar aldagömlu hefðar. „Þetta er rosalega gaman!“
 
 
Steinbjörn Tryggvason, réttarstjóri.
 
Gunnar Þorgeirsson, hrossa- og fjárbóndi frá Efri-Fitjum í Víðidal, er að skanna mosótt trippi þegar blaðamaður tekur hann tali. „Ég var með 12 hross á fjalli. Ég vildi bara vera viss um að þetta væri mitt,“ segir hann, og sú var raunin. „Trippin breytast við þetta. Þau eru feit á sumrin þegar þau eru rekin á afréttinn en koma til baka á haustin í góðum holdum. Þau hreyfa sig meira þar.“ Gunnar tók þátt í að reka stóðið til byggða daginn áður í einstaklega fallegu haustveðri. „Við fórum í göngur í nokkra daga í september til að reka bæði hross og kindur niður í hólf nær byggð og svo rákum við hrossin þaðan og í réttina í gær [4. október],“ segir hann. Þá um kvöldið var áfanganum fagnað með hlöðuballi í Stóru-Ásgeirsá, en aðalfjörið er eftir að stóðréttum lýkur þegar sveitungar koma saman til að skemmta sér á stóðréttardansleiki í Víðihlíð.
 
 
Gunnar Þorgeirsson, hrossa- og fjárbóndi.
 
Stóðréttir er þjóðlegur viðburður sem veitir sérstaka innsýn í íslenska sveitamenningu. Meðal þeirra sem fylgjast með réttunum eru erlendir ferðamenn frá ýmsum löndum. Margir fylgdu bændunum á baki er þeir ráku stóðið til byggða í síðdegissólinni deginum áður. Haukur Suska frá Hvammi í Vatnsdal er einn þeirra hrossabænda og ferðaþjónustufrömuða sem reka Íslandshesta. Síðustu fjóra daga hefur hann riðið með hóp af ferðafólki um Vatnsdal og Vestur-Hóp, yfir Gljúfurá, að Kolugljúfri og upp á Víðidalstunguheiði. Ferðin endar á því að hleypa á harðaspretti yfir Hóp eftir að réttarstörfum lýkur. „Fólkið kemur til þess að upplifa íslenskan kúltur og réttarferðir eru vel fallnar til þess,“ segir Haukur. „Þetta eru mest útlendingar, en nokkrir Íslendingar líka. Íslendingarnir elska stemmninguna, en hafa kannski ekki tengingu við sveit lengur. Þetta eru dýrmætir gestir. Stór hluti þeirra kemur aftur. Þau lýsa þessu sem mjög sterkri upplifun sem þau taka með sér út í lífið.“
 
 
Haukur Suska leiðir ferðamenn um Húnavatnssýslur.
 
John Goldfine frá Maine í Bandaríkjunum er í 18. skipti í hestaferð á Íslandi. Aðspurður hvað það er sem fær hann til að koma aftur og aftur brosir hann og svarar: „Eitt orð: Hestar!“ Hann hefur riðið víðar en í Húnavatnssýslu, en þessi staður er honum sérstaklega kær. „Ég þekki og treysti Hauki og mér líður eins og ég eigi heima í Vatnsdal,“ segir hann. Íslenski hesturinn er líka í uppáhaldi hjá honum. „Aðrir hestar sem ferðamenn ríða í stórum hópum eru ekki eins viðmótsþýðir. Fólk kann ekki að stjórna þeim og þá hætta þeir að vera móttækilegir, með eyrun aftur. Mér finnst eins og ég nái betra sambandi við íslenska hesta. Það er hægt að eiga í samskiptum við þá. „Þú vilt ríða á brokki? Allt í lagi. Þú þarft ekki að tölta upp brekkuna, en kannski þangað til við komum að henni?“ Það er hægt að semja við þá. Finna milliveg. Mér líkar það.“ Haukur kann einnig að meta kosti reiðskjóta sinna: „Að finna hvað hesturinn er sterkur. Hann getur hlaupir á mjúku tölti yfir stokka og steina. Þetta er frábær ferðamáti. Það eru mikil verðmæti að eiga íslenska hestinn og geta ferðast frjáls um landið.“
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Louisa Hackl.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: