Worldwide Virtual Winner gefur knöpum og gæðingum þeirra tækifæri til þess að láta ljós sitt skína í háklassa keppni á netinu.

Íþróttaviðburðum hefur verið slegið á frest eða aflýst um allan heim til armæðu fyrir íþróttafólk sem hefur þjálfað stíft í allan vetur – og ekki síst reiðmenn. Keppnin Worldwide Virtual Winner kemur eins og himnasending, því þar geta knapar á öllum aldri frá hvaða landi sem er tekið þátt, sýnt listir sínar og keppt við þá bestu í heimi – en þurfa þó ekki að ferðast neitt.

„Þetta er tilraun,“ segir Johan Häggberg, sem skipuleggur viðburðinn með Anne Fornstedt. Þau eru bæði FEIF-dómarar, reiðkennarar, þjálfarar og verðlaunaknapar, og eiga hesta í sama húsi í Svíþjóð þar sem þau búa. „Þetta var hugmynd Anne,“ segir Johan. „Við vorum að skrafa saman í hesthúsinu einn daginn og hún minntist á að hana langaði til að halda háklassa keppni á netinu, þannig að við fórum að kasta hugmyndum á milli.“ Tvíeykið er venjulega önnum kafið við reiðkennslu og dómarastörf, en geta ekki ferðast út fyrir Svíþjóð sem stendur. „Til stóð að við myndum dæma margar keppnir – og ég hafði áformað að vinna í Danmörku í tíu daga en nú eru landamærin lokuð – þannig að við þurftum að finna okkur eitthvað annað að gera.“

Johan Häggberg.

Worldwide Virtual Winner keppnin verður haldin 10. og 11. júní fyrir fullorðna þátttakendur og viku seinna, 17. og 18. júní fyrir börn og ungmenni. Fullorðnir keppendur hafa frest til 25. maí til að skrá sig til leiks og senda inn myndband af sér og hestinum eða hestunum sem þeir kjósa að keppa á, en börn og ungmenni hafa frest til 1. júní. Keppnisgreinarnar eru T1, T2, V1, F1 og T8, sem er sérstök „kórónuveiruáskorun“. Þátttökuréttindi hafa allir þeir fullorðnu knapar sem hafa hlotið einkunnina 7,0 á einhverjum WR-viðburði á hvaða hesti sem er. Fyrir börn og ungmenni gildir einkunnin. Aðrar einkunnir gilda fyrir fimmgang (F1), en það eru 6,5 fyrir fullorðna, 6,0 fyrir ungmenni og 5,5 fyrir börn og unglinga. Dómnefndin fer yfir öll innsend myndbönd sem eru í ásættanlegum gæðum og gefa keppendum einkunn á eins fagmannlegan og sanngjarnan hátt og mögulegt er. Þetta eru dómarar með mikla reynslu, þau Jens Füchtenschnieder, Hulda Geirsdóttir, Peter Häggberg, Rune Svendsen, Steindór Guðmundsson og Sophie Kovac.

Jafnvel þótt keppnin sé óopinber fylgir hún stöðlum FEIF og sigurvegarar allra greina hljóta vegleg verðlaun. Meðal styrktaraðila eru Agria, stærsta tryggingafélag Evrópu, og UHIP. „Þeim mun fleiri reiðmenn sem taka þátt, þeim mun hærra verður verðlaunaféð,“ lofar Johan. Hann vonast eftir góðri þátttöku. „Ég verð ánægður með 100 myndbönd,“ segir hann. Meðal staðfestra keppenda eru Steffi Svendsen, Julie Christiansen, Jakob Svavar Sigurðsson, Christina Lund og Frauke Schenzel. „Þessir knapar eru með þeirra allra bestu og margir aðrir hafa lýst yfir áhuga á því að taka þátt,“ segir Johan og bætir við: „Við höfum líka mjög góða knapa í yngri aldursflokkunum.“ Þetta eru m.a. Franziska Müser, Matthías Sigurðsson og Jack Eriksson. Johan segir að aldurstakmörkum hefur verið breytt þannig að knapar mega keppa í barna- og unglingaflokki ári lengur en venjulega, þ.e. þeir sem verða 17 ára í ár mega taka þátt, og í ungmennaflokki mega keppendur vera 18-22 ára.

Jakob Svavar Sigurðsson.

Ísland, Noregur, Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland og Sviss eiga fulltrúa á Worldwide Virtual Winner en Johan vonar að knapar frá fleiri löndum og löndum utan Evrópu vilji líka taka þátt. „Ég vona að knapar frá gjörvöllu samfélagi íslenska hestsins skrái sig til leiks; vonandi einhverjir frá Bandaríkjunum líka.“ COVID-19 faraldurinn hefur sannarlega komið öllu í uppnám í hestaheiminum, eins og annars staðar, en í stöðunni felast líka ýmis og óvænt tækifæri.

„Það sem er áhugavert við þessa keppni er að það eru engin landamæri. Keppendur frá öllum heimshornum geta tekið þátt án þess að ferðast neitt,“ segir Johan. „Í Svíþjóð er haldið sérstakt „kórónumót“ á netinu sem er mjög vinsælt. Fólk sem keppir ekki undir venjulegum kringumstæðum tekur þátt í rafrænum keppnum. Ég held að þau séu komin til að vera.“ Með nútímatækni er hægt að ná til nýrra markaða og gera samfélag íslenska hestsins aðgengilegra.

Julie Christiansen.

Þeir sem vilja taka þátt í Worldwide Virtual Winner geta skráð sig á icesale.se (leiðbeiningar má finna á Fésbókarsíðu viðburðarins). Fresturinn til að senda inn myndbönd er sem fyrr segir: 25. maí fyrir fullorðna og 1. júní fyrir börn og ungmenni. Á 10. og 11. júní verður hægt að fylgjast með á icesale.se þegar myndböndin eru spiluð og dómararnir gefa einkunn (og viku seinna verða myndböndin í barna- og ungmennaflokkum tekin fyrir). Tuttugu efstu knaparnir í hverri grein í fullorðinsflokki og 12 efstu knaparnir í barna- og ungmennaflokkum eru beðnir um að senda inn annað myndband fyrir úrslitin, sem verða sýnd sem „live event“ á Facebook.

Fólk alls staðar að úr heiminum getur fylgst með útsendingunum svo þetta er kjörið tækifæri fyrir knapa til að koma sjálfum sér og hestunum sínum á framfæri – og fyrir samfélag íslenska hestsins til að kynna sitt framúrskarandi hrossakyn.

Öll innsend myndbönd verða sýnileg á icesale.se þar til keppni lýkur.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Worldwide Virtual Winner og Gunnar Freyr Gunnarsson

Myndasafn

0 0 0 0

Deila: