Degi íslenska hestsins var fagnað með fjölbreyttri dagskrá víða um land og erlendis. Sigurvegari myndbandakeppninnar var Klara frá Þýskalandi og óskum við henni til hamingju.
Alþjóðlegur dagur íslenska hestsins var haldinn hátíðlegur á Íslandi og víða erlendis þann 1. maí síðastliðinn. Viðburðinn skipulagði Horses of Iceland í fyrsta skipti árið 2016 og er hann óðum að festast í sessi sem árviss gleðidagur í alþjóðasamfélagi íslenska hestsins. Í ár var lögð sérstök áhersla á að hvetja hestamannafélög og aðra aðila til að halda opið hús í tilefni dagsins, í samstarfi við Landssamband hestamannafélaga (LH). Um allt land héldu hestamannafélög fjölbreytta viðburði. Á sumum stöðum riðu hestamenn prúðbúnir í skrúðreið í gegnum bæinn, knapar á öllum aldri léku listir sínar, teymt var undir börnum á nokkrum stöðum og mikið var um sýningar og keppnir. 
 
Horses of Iceland leit við hjá Spretti í Kópavogi og fylgdist með keppni í Reynisbikarnum þar sem nemendur í Reiðmanninum hjá Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans (LBHÍ) sýndu hæfni sína. „Þetta er lokahnykkurinn á vetrardagskránni,“ útskýrði Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Spretts, en félagið hefur verið í samstarfi við LBHÍ síðustu tvö ár og boðið upp á nám í Reiðmanninum. Námið er einnig í boði hjá öðrum hestamannafélögum um allt land sem eru í samstarfi við LBHÍ. Útskrift fylgdi í kjölfarið á forkeppni og úrslitakeppni. Knapamerkin voru kynnt, krakkar kepptu í nýstárlegri íþrótt – hestafótbolta – og síðan var teymt undir börnum við mikla hrifningu upprennandi hestamanna. Hægt var að skrá áhugasama á reiðnámskeið.
 


Magnús Benediktsson (í miðjunni), ásamt Hinriki Þór Sigurðssyni frá LBHÍ, Þórdísi Önnu Gylfadóttur reiðkennara hjá Spretti og hryssunni Þrumu.
 
Magnús var ánægður með daginn. „Við lítum á þetta sem okkar glugga þar sem hinn almenni iðkandi getur kynnt sér það sem við erum að gera,“ sagði hann. Hinrik Þór Sigurðsson, verkefnastjóri hjá Landbúnaðarháskólanum tók undir það. Hann lýsti deginum sem „fræðslugátt þar sem þeir sem eru forvitnir um hestamennsku geta komið til að skyggnast inn.“ Áhugi á námskeiðum og hestatengdum námsbrautum hefur aukist síðan dagurinn var fyrst haldinn. „Eftir að við fórum í samstarf við Sprett hefur verið meiri eftirspurn og við höfum þurft að stækka námið.“  
 
Á sumum stöðum var einnig dagskrá næstu daga á eftir. Í Víðidal fögnuðu hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu með sýningunni Æskan og hesturinn, sem er eins konar uppskeruhátíð ungra knapa. Þeir sýndu listir sínar í reiðmennsku við mikinn fögnuð áhorfenda. Mikið er lagt upp úr ungliðastarfi innan félaganna. „Börn eru þátttakendur í dagskránni,“ sagði Magnús og lagði áherslu á orð sín. Áhorfendabekkir voru þétt setnir þegar börn og ungmenni í sínu fínasta pússi riðu í fylkingu inn í reiðhöllina og sýndu færni sína í reiðmennsku með gleðibros á vör. Friðrik Dór tróð upp milli fjölbreyttra atriðanna. 
 
Í ár stóð Horses of Iceland fyrir myndbandasamkeppni þar sem unnendur íslenskra hesta um víða veröld voru hvattir til að deila uppáhaldsaugnablikunum sínum með ferfættum félögum. Samkeppnin vakti mikla athygli, en 30 myndbönd voru send inn á Facebook-síðu verkefnisins. Lesendur voru síðan beðnir um að kjósa sitt eftirlætis myndband. Sigurvegarinn, Klara frá Þýskalandi, hlaut 808 atkvæði, en myndbandið fjallar um hvernig hestamennska léttir lundina. Vinátta manna og hesta var í fyrirrúmi, en síðan var stigið á bak og riðið um í fallegu umhverfi, þar sem kraftur reiðskjótanna kom glögglega í ljós. Klara þótti gera eiginleikum hrossakynsins góð skil. Í verðlaun hlýtur hún flug til Íslands með Icelandair að andvirði 70.000 kr., hestaferð með Íshestum fyrir tvo og tvo vikupassa á Landsmót 2020. Til hamingju Klara! Hægt er að horfa á öll myndböndin hér.
 
Við þökkum öllum sem tóku þátt í að fagna Degi íslenska hestsins með okkur.
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Louisa Hackl.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: